Ekkert verður af umfjöllun Alþingis um Klaustursmálið svo kallaða, en allir meðlimir forsætisnefndar Alþingis hafa lýst sig vanhæfa til að fjalla um málið og sagt sig frá meðferð þess. Engir varamenn eru í nefndinni og getur hún því ekki tekið málefni Klaustursþingmannanna til meðferðar, né að vísa þeim til siðanefndar þingsins, þar til lögum hefur verið breytt. Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu í dag.

Í kjölfar uppljóstrana um ummæli fjögurra þingmanna úr Miðflokknum og tveggja fyrrverandi þingmanna Flokks fólksins, sem hafa verið til umfjöllunar fjölmiðla í á þriðju viku, var málinu vísað til forsætisnefndar Alþingis. Sú nefnd fer með meint brot þingmanna á siðareglum Alþingis, og getur eftir atvikum vísað málinu til siðanefndar.

Samkvæmt heimildum blaðsins sendu þingmenn Miðflokksins, þau Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir nefndinni bréf þar sem meðal annars voru reifuð sum þeirra ummæla sem hluti nefndarmanna hafa látið falla eftir að málið birtist almenningi í fjölmiðlum. Í bréfinu var spurt hvort ekki væri ástæða til að efast um hæfi hluta þeirra þingmanna sem þar sitja.

Nefndin skipar forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon, auk varaforseta hans: Guðjón S. Brjánsson úr Samfylkingunni, Brynjar Níelsson úr Sjálfstæðisflokknum, Þorsteinn Sæmundsson úr Miðflokknum, Þórunn Egilsdóttur úr Framsóknarflokknum, Jón Þór Ólafsson úr Pírötum ásamt Bryndísi Haraldsdóttur úr Sjálfstæðisflokknum. Þá sitja jafnframt í nefndinni sem áheyrnarfulltrúar Þorsteinn Víglundsson úr Viðreisn og Inga Sæland úr Flokki fólksins.

Eins og áður segir er nefndin skipuð forsetum þingsins, en þeir hafa enga varamenn til að taka sæti sitt í nefndinni. Jafnvel þó að svo væri myndu þeir varamenn líka telja sig vanhæfa, en nefndarmenn forsætisnefndar telja sig vanhæfa vegna ummæla sinna um málið í fjölmiðlum. „Ljóst er af umfjöllun fjölmiðla að fjöldi þingmanna, þ.m.t. forsætisnefndarmenn, hafa tjáð sig um málið með ýmsum hætti og lýst viðhorfum sínum til framgöngu nefndra þingmanna,“ segir í tilkynningu frá forseta þingsins.

Í tilkynningunni boðar forseti þingsins að auki lagabreytingar til að bregðast við þessu. „Mun forsætisnefnd því koma saman í byrjun janúar til að fjalla um nauðsynlegar lagabreytingar svo að ekki verði töf á meðferð málsins. Markmið þeirra lagabreytinga er að tryggja að málið geti gengið með réttum hætti til siðanefndar.“