„Ég er ein þeirra sem hef sagt, þetta gengur of hægt fyrir minn smekk en eigi að síður erum við að ná þeirri áætlun sem að við lögðum upp með, það er að segja, nú erum við að nálgast 45 þúsund manns í lok mars eins og við sögðum. Ég hef sagt að ég telji að meirihluti þjóðarinnar verði bólusettur fyrir mitt ár, ég held að það muni standast, út frá þeim áætlunum sem við höfum," segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

Um 60 prósent þjóðarinnar þarf að vera að fullu bólusettur eigi að nást hið svonefnda hjarðónæmi.

Fréttablaðið/Stefán

Um slakanir á landamærunum segir Katrín að enn eigi fá leiðbeiningar sóttvarnarlæknsis um hvaða vottorð verði tekin gild á landamærunum þegar Bretar og Bandaríkjamenn fá leyfi til að ferðast hingað, en reglugerð þar um tekur gildi 6. apríl. Hún segir til greina koma að fólk með gild vottorð fari í einfalda skimun, ekkert sé þó útfært.

Sjálf segist hún ekki hafa beitt sér að neinu ráði sérstaklega til að fá meira bóluefni til landins, annað en að eiga símafund við forsvarmönnum Pfizer fyrr á árinu vegna mögulegrar samvinnu í tilraunaverkefni um fjöldabólusetningu. Af því varð ekki eins og þekkt er.

Misnáið samband ríkja við framleiðendur

Katrín segir að sumar þjóðir eigi greiðari aðgang að bóluefni: „Auðvitað er það töluverður aðstöðumunur á milli þjóða, tökum bara sem dæmi Breta sem í fyrsta lagi fara þessa leið að nýta bara fyrsta skammtin og eru í þeirri aðstöðu að AstraZeneca er fyrirtæki með tengsl við Bretland en þegar við skoðum fjölda fullbólusettra þá eru Ísland og Danmörk komin lengst í fullri bólusetningu“

Um þá stefnu sem stjórnvöld hafa tekið í baráttunni við Covid-19 undanfarið ár svarar Katrín: „Ef við skoðum alþjóðlegar rannsóknir á þesssu ári þá er þessi aðferðafræði, að vera með mikla skimun og smitrakningu og mikla beitingu á sóttkví og eingangun, hún er í raun og vera að skila sama sóttvarnarárangri og útgöngubann er að skila en hún er um leið með minni samfélagslega og efnahagsleg áhrif“,

Rétt að stíga hratt inn og fast

„Ég held að það hafi verið rétt aðferðafræði sem var valin í upphafi. Ég held líka að það sé rétt sem við erum að gera núna, að stíga fast inn í, tiltölulega hratt. Við erum ekki búin að ná utanum þetta, það er ennþá smit utan sóttkvíar og það þarf bara að fara tiltölulega hratt inn í þetta“.

Yfirmarkmiðið hafi alltaf verið að vernda líf og heilsu fólks.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrirsögn stóð fyrst að bólusetningu yrði lokið um mitt ár en rétt er að Katrín sagði að meirihluti þjóðarinnar yrði bólusettur um mitt ár. Uppfært klukkan 18:42.