Vinsældir þess að kaupa mat á netinu hvort sem það eru tilbúnir réttir eða matvörur úr dagvöruverslunum á Íslandi fara vaxandi og hefur salan aukist um 170% á einu ári. Fólk á aldrinum 25-34 ára en líklegast til að nýta sér þjónustuna. Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslu sem Rannsóknasetur verslunarinnar gaf út um íslenska netverslun.

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, annar eigandi Boxins, vefverslunar sem selur matvörur og aðrar nauðsynjavörur fyrir heimili, segist hafa fundið fyrir þessari aukningu.

„Við erum í rauninni að sjá þreföldun á milli ára og aukningin er mjög mikil á milli mánaða. Þannig að ég get alveg tekið undir tölurnar í skýrslunni.“

Samkvæmt skýrslunni telja neytendur almennt helstu kostina við netverslun vera þægindin sem því fylgja og nefna þá helst að það auðveldi verðsamanburð, vöruúrvalið sé betra og að því fylgi tímasparnaður. Þá kemur einnig fram að barnafjölskyldur og þeir sem eru útivinnandi hugnist best að kaupa mat á netinu. Sigurður tekur undir það og segir að fólk vilji frekar nota tíman með börnunum eða í tómstundir.

„Okkur hefur fundist það vera aðallega fjölskyldufólk sem er að reyna að spara sér tíma. Í tölum sem komu frá Meninga í fyrra þá var meðal notandi að fara 180 sinnum út í búð á ári. Sem sagt þrisvar í viku og segjum að meðal verslunarferð taki klukkutíma, með akstri til og frá en ef þú síðan tekur allan þennan tíma saman þá er þetta heil vika á ári. Þannig að þetta er fólk sem vill spara sér tíma og nota hann frekar í að gera eitthvað skemmtilegt, verja honum með fjölskyldunni eða eitthvað annað.“

„Að fólk sé að eyða svona miklum tíma í að kaupa Cornflakes og Cheerios er náttúrulega mjög furðulegt. Við sjáum það að allavega yngri kynslóðin er að átta sig á því að tíminn er verðmætur.“

Nota þjónustuna í vikuinnkaupin

Aðspurður hvort fólk nýti sér þjónustuna reglulega segir Sigurður að flestir panti einu sinni til tvisvar í viku og versli þá frekar mikið í einu.

„Ég held að flestir séu að panta einu sinni til tvisvar í viku og eru þá flestir að taka þessi vikuinnkaup. Það eru svo mörg heimili sem skipuleggja matarvikuna og þá eru þau að taka þessi stórinnkaup hjá okkur og sérstaklega ef þetta eru vörur sem eru annaðhvort þungar eða stórar og fyrirferðamiklar, þá er betra að láta okkur halda á þessu. Það er ekkert leiðinlegra en að þurfa að þræla sér í gegnum bílaplan í slyddu með þreytt börn og kannski stóran klósettpappírspakka og gos.“

Þrátt fyrir að aukning sé á þjónustu líkt og Boxið bíður upp á töldu flestir í könnuninni matvæli vera þá vörutegund sem þeir gætu síst hugsað sér að kaupa á netinu. Sigurður kannast við þetta vandamál og segir fyrirtækið gera sitt besta til að koma til móts við neytendur og nefnir einnig að Ísland sé nokkuð langt á eftir nágrannaþjóðunum þegar kemur að heimsendigarþjónustu með matvæli.

„Við höfum passað upp á þetta að velja bara upp á vörur sem við myndum kaupa sjálf og ef að fólk hefur kvartað yfir vörum þá höfum við annaðhvort endurgreitt eða komið með nýtt. Við könnumst við þessi vandamál sem eru listuð upp í skýrslunni, en þetta er klárlega verslunarmáti framtíðarinnar.“