Tæp 12 prósent há­skóla­nema horfa of mikið á klám og 7 prósent telja sig eiga við vanda að stríða. Þetta kemur fram í könnun meðal nem­enda í Há­skóla Ís­lands og Há­skólanum í Reykja­vík sem unnin var fyrir BS-rit­gerð Egils Gylfa­sonar í sál­fræði, um klám­vanda.

„Þetta er rosa­lega falinn vandi og er mikið tabú. Þú segir engum að þú eigir við klám­vanda að etja nema þegar vandinn er farinn að hafa mikil á­hrif,“ segir Egill.

Klám­vandi hefur víðari skil­greiningu en klám­fíkn og er ekki háður fræði­legum skil­yrðum eins og fíkn.

„Klám­vandinn er fjöl­breyttur og fer eftir að­stæðum við­komandi. En hann truflar alltaf eitt­hvað annað í lífi við­komandi, hvort sem það er truflun á líðan eða að­stæðum,“ segir hann.

Getur það verið fé­lags­leg ein­angrun, skertur á­hugi á sam­böndum, kyn­ferðis­leg vand­ræði svo sem ris­vanda­mál, tog­streita í sam­böndum, minni á­hugi á ýmsum hlutum, svo sem námi, vinnu og heimilis­verkum.

„Það er mjög al­gengt að klám tengist á ein­hvern hátt skilnuðum.“

Tæp níu prósent aldrei séð klám

Alls svöruðu 666 nem­endur könnuninni, 33,6 prósent karlar og 65,7 prósent konur. Flestir svar­endurnir, 64,3 prósent, voru á aldrinum 18 til 25 ára.

Lang­flestir, 91,3 prósent, hafa séð klám ein­hvern tímann um ævina, en hafa ber í huga að skil­greining fólks á klámi er ekki alltaf sú sama. 8,7 prósent hafa aldrei séð klám og 21,4 prósent sögðust ekki horfa á það. 10 prósent horfa 5 til 7 sinnum í viku eða oftar á klám.

Sam­kvæmt Agli er tíðnin og magnið ekki endi­lega besti mæli­kvarðinn á vandann. Upp­lifun ein­stak­linga og sið­ferði­leg gildi eru afar mis­munandi.

Lík­legra er að fólk upp­lifi hjá sér vanda ef klámið stríðir gegn sið­ferði­legum gildum. 29 prósent horfa sér­stak­lega til sið­ferði­legra þátta við val sitt á klám­efni, það er að velja klám þar sem til dæmis of­beldi er snið­gengið og allir fá laun fyrir vinnu sína.

Mikill kynjamunur í klámáhorfi

Kynja­munurinn í klá­má­horfi há­skóla­nema er á­berandi. 27,8 prósent karla töldu sig eiga erfitt með að stjórna klám­notkun sinni en að­eins 3,8 prósent kvenna. Munurinn er sjö­faldur og mældist svipaður þegar spurt var um hvort fólk teldi notkun sína vera vanda­mál.

Hátt hlut­fall, 35,8 prósent, höfðu gert til­raunir til þess að draga úr klám­notkun og að­eins 5 prósentum tókst það ekki. „Mér finnst lík­legt að í flestum til­vikum reyni fólk að hætta af sjálfs­dáðum og taka einn dag í einu. Þetta er hins vegar flókið því hvötin til kyn­ferðis­legrar hegðunar er oftast til staðar,“ segir Egill.

2,4 prósent höfðu lent í því að að­standandi benti þeim á vanda tengdan klám­notkun og 5,3 prósent höfðu í­hugað að leita sér að­stoðar.

Þörf á sérþekkingu sálfræðinga og ráðgjafa

SLAA, sam­tök fólks sem glímir við ástar- og kyn­lífs­fíkn, taka á móti fólki sem glímir við vanda tengdan klám­notkun. Þá sinna sál­fræðingar og geð­læknar einnig því fólki, en Egill segir sár­lega vanta hér á landi sál­fræðinga eða aðra ráð­gjafa sem eru sér­menntaðir í við­fangs­efninu. Fræða­heimurinn er einnig að kljást við skil­greiningar og munur er á þeim innan kerfa, það er hins ameríska DSM og evrópska ICD. Klám­vandi hefur ýmist verið skil­greindur sem fíkn eða á­ráttu­kennd hegðun eða hegðun sem fólk hefur misst stjórn á.

Eins og allir vita hefur inter­netið stór­aukið að­gengi fólks að klám­efni. Það kom hins vegar Agli á ó­vart hversu margir horfa á klám­efni í far­símum sínum. 57,2 prósent horfa mest­megnis á klám í far­síma en að­eins 13,8 prósent í tölvu. Egill segir að hin mikla klám­notkun í far­símum hjálpi ekki til þegar kemur að klám­vandanum. „Fólk getur nú horft á klám uppi á Esjunni eða í breska þinginu eins og dæmin sýna,“ segir hann.