Klaka­stífla í far­vegi Hvít­ár fram af landi Vað­ness er sögð loka ós Höskulds­lækjar en þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á Suður­landi. Til­kynning um stífluna barst lög­reglu í gær­kvöldi og leggst nú vatn úr læknum að sumar­húsa­byggð á bökkum árinnar.

Að sögn Sveins Kristjáns Rúnars­sonar, yfir­lög­reglu­þjóns á Suður­landi, hafa engin tjón verið til­kynnt að svo stöddu en mögu­leiki er að vatns­tjón verði í sumar­húsum þegar fer að hlýna og klakinn bráðnar. Árið 2018 kom klaka­stífla á sama stað og varð eitt­hvert tjón en sú stífla ruddi sig skömmu síðar.

Að því er kemur fram í til­kynningunni varð til­kynnandi fyrst var við stífluna í fyrra­dag en dregið hafi úr al­var­leika á­standsins í árinni í gær. Sveitar­stjórar í Gríms­nes- og Grafnings­hreppi, Flóa­hreppi og í Ár­borg koma til með að at­huga stöðuna síðar í dag.