Stuðla­bergs­klæðningin sem nú er verið að setja utan á nýja Lands­banka­húsið við Austur­höfn í Reykja­vík vegur ekki undir þrjú hundruð tonnum, en verkið er vel á veg komið og hefur að vonum vakið mikla at­hygli meðal veg­far­enda, ekki síst út­lendinga.

Um er að ræða ís­lenskt blá­grýti sem kemur úr Hrepp­hóla­námu í Hruna­manna­hreppi, sem er rík af stuðla­bergi – og er hver til­sniðinn steinn sem fer utan á bygginguna 60 til 120 senti­metrar á lengd og er klæðningin alls um 3.300 fer­metrar.

Nýja húsið er alls 16.500 fer­metrar að stærð, auk tækni­rýma og bíla­kjallara sem nýtist öllu svæðinu. Bankinn mun nýta um 10.000 fer­metra en selja eða leigja út 6.500 fer­metra, þar á meðal norður­húsið, en um skeið hafa staðið yfir við­ræður við Stjórnar­ráðið um kaup á þeim hluta fyrir utan­ríkis­ráðu­neytið og ef til vill fleiri ráðu­neyti, sem munu nú vera í upp­námi, svo sem fram kemur á for­síðu blaðsins í dag.

Ætla má að um 650 starfs­menn Lands­bankans vinni í nýja húsinu sem leysir af hólmi að minnsta kosti tólf önnur skrif­stofu­hús bankans í Kvosinni og í Borgar­túni. Sparnaður bankans vegna flutninganna er á­ætlaður um 500 milljónir króna á ári.

Á­ætlað er að full starf­semi verði komin í húsið undir árs­lok.