Mikill uppgangur virðist vera í íslenskri kjötframleiðslu ef marka má nýbirtar tölur frá Hagstofunni. Er þar greint frá því að framleiðsla nautakjöts hafi aukist um 21 prósent í apríl 2021 á milli ára. Þá hafi framleiðsla alifuglakjöts aukist um þrettán prósent og svínakjötsframleiðslan um átta prósent.

Þrátt fyrir það varar Höskuldur Sæmundsson, verkefnastjóri hjá Landssambandi kúabænda, við oftúlkun.

„Ástæðan fyrir þessu hástökki er einföld. Í apríl í fyrra var heimsfaraldurinn rétt að byrja. Framleiðslan var því minni og það er því óvarlegt að bera saman mánuð við mánuð. Við erum að rétta úr kútnum á ný.“

Höskuldur segir að íslenska nautakjötið hafi þó verið í ákveðinni sókn áður en faraldurinn hófst. Sjáist það meðal annars á því að frá árinu 2014 til 2019 hafi sala á innlendu nautakjöti aukist jafnt og þétt en sala á innfluttu kjöti dregist saman.

„Veitingamarkaðurinn er að vakna til lífsins eftir hnignunarskeið. Gæðin hafa líka verið að aukast alveg gríðarlega og við erum núna með þó nokkra bændur sem sérhæfa sig í framleiðslu á gæðanauti. Markaðurinn hefur alveg tekið eftir því enda eftirspurnin eftir íslensku grasfóðruðu nauti mikil,“ segir Höskuldur