Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR kýs meirihluti fólks bálför frekar en greftrun eftir að jarðvist þess lýkur. Spurt var hvers konar útför fólk myndi kjósa fyrir sjálft sig og boðið upp á fimm svarmöguleika; „bálför (líkbrennsla)“, „jarðarför (greftrun)“, „annað“, „veit ekki“ og „vil ekki svara.“

Af þeim sem svöruðu sögðust 59% vilja láta brenna sig, 38% völdu jarðarför og þau 3% sem eftir standa vilja eitthvað annað.

Úrtakið var valið handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR, einstaklingar átján ára og eldri. 928 manns tóku þátt og 78,5% tóku afstöðu til spurningarinnar. Svarendur í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára, voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að kjósa bálför, eða 62%.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru líklegri til að kjósa líkbrennslu, 68%, heldur en greftrun, 29%. Fólk á landsbyggðinni var líklegra til að kjósa jarðarför, 55%, heldur en bálför. Enginn munur var á afstöðu eftir kyni.

Þegar val fólks á útfararkostum er skoðað eftir því hvaða stjórnamálaflokka það kýs er skiptingin nokkuð jöfn nema hjá kjósendum Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar sem hallast frekar að bálför. Þannig völdu 71% kjósenda Samfylkingarinnar líkbrennslu og 80% þeirra sem síðast kusu Pírata og Viðreisn.