Rétt innan við helmingur borgarbúa er hlynntur frekari þéttingu byggðar í Reykjavík, samkvæmt könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Fleiri eru þó hlynntari henni en andvígir en 35 prósent segjast andvíg henni.

Fréttablaðið/Umbrot

Mikill munur eftir stjórnmálaskoðunum

Skýr munur er á afstöðu kjósenda til þéttingar byggðar eftir því hvort þeir kjósa flokkana sem eru í meirihlutasamstarfi eða flokka sem eru í minnihluta í borgarstjórn.

Mestur stuðningur við þéttingu byggðar er meðal kjósenda Samfylkingarinnar en 78 prósent kjósenda flokksins eru hlynnt frekari þéttingu í Reykjavík. Litlu færri, eða 71 prósent, kjósenda Viðreisnar er á sama máli. Meðal kjósenda Pírata og Vinstri grænna eru yfir 50 prósent einnig hlynnt frekari þéttingu.

Fréttablaðið/Umbrot

Mjög ólík viðhorf eru meðal kjósenda þeirra flokka sem eru í minnihluta og nær stuðningur við frekari þéttingu ekki 25 prósentum í neinum þeirra.

Athygli vekur að kjósendur Framsóknarflokksins hafa sömu skoðanir á þéttingu byggðar og kjósendur minnihlutaflokkanna í Reykjavík en 23 prósent kjósenda flokksins eru hlynnt frekari þéttingu en 57 prósent þeirra eru andvíg henni.

Karlar hlynntari þéttingu

Karlar eru mun hlynntari frekari þéttingu byggðar í borginni en konur. Rúmur helmingur karla, eða 52 prósent, er hlynntur henni en um 30 prósent á móti henni. Konur eru hins vegar hlynntar frekari þéttingu í 38 prósentum tilvika en 40 prósent kvenna eru andvíg henni.

Þá er áberandi mestur stuðningur við þéttingu byggðar meðal fólks á aldrinum 35-44 ára en 63 prósent fólks á þeim aldri eru hlynnt frekari þéttingu. Minnstur stuðningur við þéttingu byggðar er hins vegar meðal elstu kynslóðarinnar, en 28 prósent þeirra sem eru 65 ára og eldri eru hlynnt frekari þéttingu og 50 prósent þeirra eru andvíg.

Mestur stuðningur við frekari þéttingu byggðar er meðal tekjuhæstu borgarbúanna eða 61 prósent fólks með 800 þúsund eða hærri tekjur á mánuði. Aðeins 38 prósent þeirra sem hafa 400-599 þúsund krónur í tekjur á mánuði eru hlynnt frekari þéttingu.

Þegar afstaða fólks er skoðuð eftir búsetu kemur í ljós að langmestur stuðningur er við þéttingu byggðar í miðborginni og hverfum sem liggja næst henni. Þannig eru 66 prósent íbúa í 101 hlynnt frekari þéttingu og sama sinnis eru 60 prósent íbúa í Hlíðunum og 54 prósent íbúa á Melunum og öðrum hverfum í póstnúmerinu 107.

Fréttablaðið/Umbrot

Mest andstaða er við þéttingu byggðar í efri hverfum borgarinnar eins og Breiðholti og Grafarvogi. Þá eru mjög skiptar skoðanir um málefnið í hverfum þar sem þétting byggðar hefur verið mjög til umfjöllunar að undanförnu eins í Háaleiti og Vatnsmýri.

Könnunin var gerð dagana 4. til 18. mars. Úrtakið var 2.400 og svarhlutfallið 52 prósent.