Rúm­lega helmingur Reyk­víkinga er hlynntur Borgar­línu en innan við þriðjungur and­vígur henni, sam­kvæmt nýrri skoðana­könnun sem Prósent fram­kvæmdi fyrir Frétta­blaðið.

Líkt og með frekari þéttingu byggðar í Reykja­vík, sem Frétta­blaðið fjallaði um fyrir viku, sýnir könnunin meðal annars að kjós­endur þeirra flokka sem mynda nú­verandi meiri­hluta í Reykja­vík eru lík­legri til að vera hlynntir Borgar­línu en kjós­endur annarra flokka.

Fréttablaðið/umbrot

Þá eru flokkarnir sem standa utan meiri­hluta, að Fram­sókn með­talinni, lík­legri til að vera heldur and­vígir bæði Borgar­línu og þéttingu byggðar.

Ekki nýtt að Sjálfstæðisflokkurinn klofni

„Góður stuðningur við Borgar­línu og græna borgar­þróun í flestum flokkum kemur ekki á ó­vart,“ segir Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri.

Klofningur í Sjálfstæðisflokknum eru ekki nýjar fréttir fyrir borgarstjóra.

Dagur segir Borgar­línu góða fyrir um­ferðina og nauð­syn­lega til að minnka um­ferðar­tafir. Mark­mið í lofts­lags­málum náist ekki nema með bættum al­mennings­sam­göngum.

„Það er ekki nýtt að Sjálf­stæðis­flokkurinn sé klofinn í þessu en það gildir reyndar um margt annað,“ bætir Dagur við.

Menningarstríð borgarstjóra

Hildur segir borgarstjóra í menningarstríði sem skipi fólki í fylkingar eftir hvernig það velur að lifa lífi sínu.

Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins, skýtur hins vegar föstum skotum til baka og skýrir hvers vegna könnunin kemur henni ekki á ó­vart:

„Hún talar inn í það menningar­stríð sem borgar­stjóri hefur skapað í borginni þar sem fólki er skipað í fylkingar eftir því hvernig það velur að lifa sínu lífi. Meiri­hluta­flokkunum hefur al­gjör­lega mis­tekist að skapa sátt um fram­tíðar sam­göngur og skipu­lag í borginni sem hefur leitt til van­trausts og ó­á­nægju,“ segir Hildur.

Vill málin úr skotgröfum og upphrópunum

Einar Þor­steins­son, odd­viti lista Fram­sóknar­flokksins, tekur að nokkru leyti undir með Hildi. „Um­ræðan um Borgar­línu og þéttingu byggðar hefur verið föst í skot­gröfum og upp­hrópunum og því vill Fram­sókn breyta,“ segir Einar. Hann leggur áherslu á Samgöngusáttmálann, enda mál nátengt Sigurði Inga Jóhannssyni formanni flokksins.

„Um­ræðan um Borgar­línu og þéttingu byggðar hefur verið föst í skot­gröfum og upp­hrópunum og því vill Fram­sókn breyta.“

„Fram­sóknar­flokkurinn styður Sam­göngu­sátt­málann sem for­maður flokksins hafði for­göngu um. Þar er mark­miðið að ein­falda alla um­ferð fyrir akandi, al­mennings­sam­göngur, hjólandi og gangandi. Út­færslan er hins vegar meiri verk­fræði en pólitík.“

„Hvað þéttingu byggðar snertir þá hefur þróun fast­eigna­markaðar undan­farið sýnt að skyn­sam­legast er að byggja með þarfir allra borgar­búa í huga. Bæði þétta byggð og brjóta nýtt land,“ segir Einar.

Borgarlína tæpast rædd yfir morgunmatnum


En verða þessi mál borgar­búum ofar­lega í huga í að­draganda kosninga?
„Þróun borgarinnar er að sjálf­sögðu eitt aðal­mál kosninganna í vor. Ekki að­eins Borgar­lína heldur Mikla­braut sem er að fara í stokk. Mér brá að sjá Sjálf­stæðis­flokkinn nú leggjast gegn því í sam­þykktri stefnu sinni,“ segir Dagur.

„Kjós­endur ræða held ég ekki Borgar­línu við morgun­verðar­borðið,“ segir Einar sem telur að kosið verði um grunn­þjónustuna; hvort börnin komist inn á leik­skóla, hvort fatlað fólk fái úr­ræði, hvort eldri borgurum líði vel, hvort stígar séu ruddir og ruslið hirt.

Hildur tekur undir með Einari og bætir við: „Kosningarnar munu snúast um hvaða stjórn­mála­afl er trú­verðugast til að tryggja fram­úr­skarandi þjónustu, öfluga inn­viði og nauð­syn­legar breytingar í borginni. Það er engum vafa undir­orpið í mínum huga að þetta afl er Sjálf­stæðis­flokkurinn.“

„Mér brá að sjá Sjálf­stæðis­flokkinn nú leggjast gegn því í sam­þykktri stefnu sinni.“

Vísbendingar um meirihlutasamstarf

Um flokks­línurnar í könnuninni og myndun meiri­hluta eftir kosningar segir Dagur mikil­vægt að næsti meiri­hluti styðji þessi verk­efni og Sam­göngu­sátt­málann. „Fram­kvæmd hans er eitt af stóru málunum fram undan,“ segir Dagur.

Að­spurður túlkar Einar könnunina ekki þannig að myndun meiri­hluta sé skrifuð í skýin. „Mér finnst þetta aftur á móti senda skýr skila­boð um að borgar­búar vilji að það sé á­fram­haldandi sátt um sam­göngu­mál borgarinnar á grund­velli Sam­göngu­sátt­málans og upp­bygging haldi á­fram. Ég held að allir séu sam­mála um að efla þurfi al­mennings­sam­göngur.“

Hildur segir að Sjálf­stæðis­flokkurinn gangi ó­bundinn til kosninga. „Myndun meiri­hluta mun snúast um mun fleira en skipu­lag og sam­göngur, til að mynda fjár­mál borgarinnar, leik­skóla­vandann, hús­næðis­vandann og inn­viði.“

Afstaða eftir hverfum borgarinnar

Mestur stuðningur við Borgar­línu er meðal íbúa í mið­borginni og Vestur­bænum í Reykja­vík. Minnstur stuðningur er hins vegar meðal íbúa í Árbæ, Breið­holti og í Grafar­vogi. Við­horf til Borgar­línu eftir hverfum eru svipuð við­horfum til frekari þéttingar byggðar sem Frétta­blaðið fjallaði um í síðustu viku.

Könnunin var gerð af Prósenti dagana 4. til 18. mars síðast­liðinn. Úr­takið var 2.400 og svar­hlut­fallið 52 prósent