Will Jennings, stjórn­mála­fræði­prófessor við Sout­hampton há­skóla og stjórn­mála­skýrandi Sky sjón­varps­stöðvarinnar, segir að vaxandi klofningur á milli banda­rískra kjós­enda sé fram­vinda sem lítur út fyrir að ekkert lát sé á miðað við for­seta­kosningarnar.

Jennings hefur undan­farin ár rann­sakað land­fræði­lega klofninga meðal þjóð­fé­lags­hópa í kosningum. Ná rann­sóknir hans meðal annars til Bret­lands og Banda­ríkjanna.

Þá er hann aðal­rann­sakandi Trust­Gov rann­sóknar­verk­efnisins sem rann­sakar traust fólks til stjórn­mála. Hann segir í sam­tali við Frétta­blaðið að upp­runi og menntun séu meðal stærstu klofnings­þátta banda­rískra kjós­enda.

„Í ár sáum við til dæmis að svæði þar sem há­skóla­menntað fólk er í meiri­hluta er lík­legra til að hallast að Demó­krötum, á meðan hvítt ó­menntað fólk styður frekar Repúblikana. Þetta hefur verið þróunin undan­farin ár í banda­rískum stjórn­málum og gerðist ekki á einni nóttu, heldur hefur þróunin verið í þessa átt síðustu tuttugu árin eða svo,“ segir Jennings.

„Það sem mér þykir á­huga­verðast í kosningunum í ár er að kjós­endur af rómönskum upp­runa sem búa í þétt­býli hafa al­mennt séð verið að hallast meira að Repúbli­könum og styðja þá í auknum mæli í stað Demó­krata,“ segir hann. Hann segir stöðuna þannig á lands­vísu og hafi kristallast í Flórída og í Miami Dade sýslu, þar sem rómanskir kjós­endur höfnuðu Biden í miklum meiri­hluta.

Klofningurinn hluti af form­gerð lýð­ræðis­þjóð­fé­laga

Jennings tekur fram að öll um­ræða um slíka klofnings­þætti sé flókin, enda sam­spil upp­runa fólks og menntunar fjöl­breytt. „Það er fólk sem er menntað og til­heyrir minni­hluta­hópum, við höfum þétt­býli þar sem meiri­hluti styður Demó­krata en svo virðast kjós­endur af rómönskum upp­runa hallast frekar að Repúbli­könum.“

Að­spurður að því hvort að aukinn klofningur og skoðana­á­greiningur meðal banda­rískra kjós­enda sé þróun sem halda muni á­fram um ó­komna tíð segir Jennings erfitt að segja til um það. Hann bendir á að klofnings­þættir séu hluti af form­gerð lýð­ræðis­sam­fé­laga.

„Þetta hefur verið þróunin í mörgum öðrum löndum líka. Við sjáum þetta í Bret­landi, án þess að þar komi til breytan um kjós­endur af rómönskum upp­runa, en meðal annars með til­liti til menntunar til dæmis og þétt­býlis og dreif­býlis. Þetta er líka raunin í mörgum öðrum evrópskum löndum, líkt og Þýska­landi, Hollandi og Frakk­landi,“ segir prófessorinn.

„Á meðan þetta er ekki ó­um­flýjan­legt, og ég held ekki að þetta séu ein­hvers­konar ör­lög, þá virðast þessir klofnings­þættir að ein­hverju leyti vera hluti af form­gerðinni, sem eru ekki ein­stakir í Banda­ríkjunum, heldur er þetta líka til staðar í öðrum frjáls­lyndum lýð­ræðis­sam­fé­lögum.“ 

Biden átti á brattann að sækja í Flórída og tapaði ríkinu til Trump, með miklum mun.
Fréttablaðið/AFP

Vanda­málið fólgið í að fá svör frá kjós­endum Trump

Að­spurður út í mikið fylgi Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta í ár, hvers vegna það hafi ekki birst í skoðana­könnunum og um hug­myndina um hinn feimna Trump kjósanda sem ein­fald­lega ljúgi til um stuðning sinn, viður­kennir Jennings að hann eigi erfitt með að fallast á þá til­gátu.  

„Það er mjög erfitt að segja á þessu stigi. Við erum enn að fá inn sönnunar­gögn en ég hef alltaf verið tor­trygginn gagn­vart því í sam­hengi við skoðana­kannanir, hvaða merkingu orðið „feiminn“ hefur.

Hug­myndin um hinn feimna Trump kjósanda er svipuð og hug­myndin um feimna kjós­endur Í­halds­flokksins, sem spratt upp í Bret­landi eftir kosningarnar 1992, þar sem mis­ræmi var í skoðana­könnnunum á fylgi Í­halds­flokksins og raun­fylgi hans í kosningunum. Fólk gat sér til um það að kjós­endur hefðu logið að spyrlum vegna skammar sem fylgdi því að kjósa Í­halds­flokkinn,“ segir Jennings. 

„Ég held ekki að þetta sé málið. Það eru margar mjög lík­legar skýringar á bak við það sem er að gerast í könnunum og ein­hverjar gætu tengst þessari kenningu. Það gæti til dæmis verið að kjós­endur Trump séu ein­fald­lega ekki eins lík­legir til að svara könnunum. Eitt sem við höfum til dæmis ekki leyst á tímum popúlískra stjórn­mála, er að kjós­endur slíkra stjórn­mála­manna eru ekki eins lík­legir til að treysta rann­sak­endum, fjöl­miðlum og því ó­lík­legri til að svara skoðana­könnunum.

Og eitt af því sem við vitum ekki er hvernig heims­far­aldurinn hafði á­hrif á svör og það hvernig fólk bregst við því að vera stöðugt heima og hvort það hafi á­hrif. Hug­myndin um hinn feimna Trump kjósanda er skrítin fyrir mér og ég veit ekki um marga kjós­endur sem eru feimnir. Því held ég að á­stæður þess að skoðanir þeirra koma ekki fram í skoðana­könnunum sé vegna annarra þátta sem skil­greina þá. Þetta er ekki sann­færandi hug­mynd sem stendur, en mögu­lega komumst við að ein­hverju í fram­tíðinni sem breytir því.“