Svisslendingar kjósa á sunnudag um mjög umdeilt frumvarp til laga um útlendingamál. Gangi það í gegn verður samningi um frjálsa för fólks milli Sviss og Evrópusambandsins sagt upp og harðari stefna í útlendingamálum tekin upp.

Frumvarpið kemur frá Svissneska þjóðarflokknum, sem er sá stærsti á sambandsþinginu en tapaði miklu fylgi í síðustu þingkosningum, árið 2019. Vonast flokkurinn til þess að geta náð vopnum sínum á ný með aukinni hörku í málum innflytjenda.

Löng hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss um ýmis mál. Skoðanakönnun um þetta mál sýnir að minnihluti landsmanna styður það, 35 prósent, en 63 prósent eru andvíg. Kosningaþátttaka hefur hins vegar ekki alltaf verið góð í landinu og óvíst hvort skoðanakönnunin verði nálægt úrslitunum. Gætu úrslitin ráðist af því hversu duglegir baráttuhópar verða að ná sínu fólki á kjörstað.

Innflytjendum hefur fjölgað mjög ört í Sviss á undanförnum áratugum. Frá árinu 1990 hefur íbúafjöldinn aukist um tvær milljónir, þar af er helmingur innflytjendur. Í dag búa 8,6 milljónir í landinu og þar af tvær milljónir innflytjenda. Hafa forsvarsmenn þjóðarflokksins haldið því fram að svissneskt þjóðerni sé í hættu, haldi þessi þróun áfram. Flestir innflytjendur koma frá Evrópusambandslöndum, rúmlega 300 þúsund frá Þýskalandi og Ítalíu, rúmlega 260 þúsund frá Portúgal og 135 þúsund frá Frakklandi.

Annað algengt popúlískt stef sem fylgjendur frumvarpsins halda fram er að ungir innflytjendur taki störf eldri Svisslendinga, þrengsli í borgum verði meiri og húsnæðisverð rjúki upp. „Nærri helmingur bótaþega eru útlendingar,“ segir á vefsíðu þeirra.

Andstæðingar frumvarpsins halda því hins vegar fram að Sviss þurfi á innflytjendum að halda, sérstaklega sérmenntuðu fólki sem starfi í heilbrigðis- og lyfjageiranum. Sviss hefur verið mjög samkeppnishæft um launakjör og þess vegna vilji fólk flytjast til landsins, ekki aðeins þegar kemur að best launuðu störfunum. Innflytjendur sinni gjarnan störfum sem Svisslendingar sjálfir sækist ekki eftir.

Innflytjendur munu sjálfir ekki geta haft bein áhrif á kosningarnar, því að í fæstum tilfellum mega þeir kjósa. Fylkin, eða kantónurnar, hafa sjálfsákvörðunarrétt um hvort þær leyfi innflytjendum að kjósa eða bjóða sig fram til embættis. Einungis tvær litlar kantónur í norðvesturhluta landsins, Jura og Neuchatel, leyfa það, þar sem samanlagt búa um 250 þúsund manns.