Á Alþingi í dag verða greidd atkvæði um frumvarp heilbrigðisráðherra sem kveður á um að þungunarrof verði heimilt til 22. viku þungunar. Frumvarpið var tekið fyrir í þriðju umræðu á þingi í síðustu viku þar sem ákveðið var að fresta atkvæðagreiðslu þar til í þessari viku.

Einnig verða greidd atkvæða um breytingartillögur sem lagðar voru fram í síðustu viku. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, lagði til að miðað yrði við 18. viku og Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að miðað yrði við 20. viku þungunar.

Mikill hiti var í umræðum á þinginu þar sem hart var tekist á um málið. Umræður stóðu yfir langt fram á kvöld síðasta miðvikudag.

Frumvarpið var lagt fram á þingi í nóvember á síðasta ári og gekk til velferðarnefndar í desember. Haldnir voru alls níu fundir í nefndinni og um 22 sérfræðingar, þar á meðal læknar, fengnir á fund nefndarinnar. Formaður nefndarinnar, Halldóra Mogensen, sagði að frumvarpið hefði verið „rætt fram og til baka“ og þó að einstaka þingmenn væru ósáttir við það þyrfti ekki að ræða það frekar.

Hægt er að kynna sér frumvarpið hér. Þing hefst í dag klukkan 15, þannig gera má ráð fyrir því að atkvæðagreiðslan fari fram seinni partinn eða í kvöld.