Staða ritara Sjálfstæðisflokksins verður laus eftir að Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir tekur við embætti dómsmálaráðherra en enginn hefur gefið formlega kost á sér í stöðu ritara.

Samkvæmt reglum flokksins þarf Áslaug að segja sig frá ritarastöðu í forystu flokksins þegar hún tekur við embætti dómsmálaráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á morgun. Verður því kosið um nýjan ritara á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins þann 14. september næstkomandi.

Borgarfulltrúarnir Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir hafa verið orðuð við hlutverkið ásamt Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Ölfusi.

Aðspurður hvort hann ætli að gefa kost á sér gaf Eyþór lítið upp.

„Ég hef ekki verið að hugsa um neitt nema að sinna borgarmálum. En það var upphaflega hugsað þannig að ritarinn væri á sveitastjórnarstiginu. Það væri nú gott ef það kæmi einhver öflugur einstaklingur í hlutverkið,“ segir Eyþór. Hann segir skipun Áslaugar ekki koma á óvart.

„Ég er viss um að hún stendur sig vel, ég hef ekki trú á öðru,“ segir Eyþór.

Elliði Vignisson vildi sömuleiðis lítið gefa upp en það var hann sem lagði fram tillögu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að ráðherrar ættu ekki að gegna stöðu ritara. Hann segist ánægður með skipun Áslaugar, hún hafi komið fram á sjónarsviðið fullmótuð og að honum hafi ávallt litist vel á hennar störf.

„Áslaug Arna hefur tekið á öllum málum með miklum myndarskap, bæði í sigrum og ósigrum,“ segir Elliði.

Hildur Björnsdóttur er einnig orðuð við stöðu ritara. Þegar Fréttablaðið náði af henni tali var nýbúið að birta fregnir af skipun Áslaugar.

„Áslaug hefur sýnt góða framgöngu síðustu misseri og er ábyrgur stjórnmálamaður,“ segir Hildur í samtali við Fréttablaðið. Aðspurð hvort hún muni gefa kost á sér sem ritara sagðist hún ekki hafa haft tíma til að hugsa málið.

Auk þess hafa Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garðabæ og Eva Björk Harðardóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps öll verið orðuð við stöðuna.