Breska þingið mun í dag kjósa í þriðja sinn um Brexit en í þetta skiptið verður kosið um framlengingu á 50. grein Lissabonsáttmálans og þar með um að fresta útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, eftir að þingið hafnaði útgöngu úr ESB án samnings í gær og samningi May daginn áður. Óvíst er um hversu langan tíma verður að ræða en búist er við að atkvæðagreiðsla fari fram klukkan sjö í kvöld að íslenskum tíma.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá hafnaði þingmeirihluti því að ganga úr ESB án samnings og þá var jafnframt naumlega samþykkt breytingartillaga við tillöguna, sem segir að Bretar skuli aldrei ganga úr ESB án samnings, en fyrri tillagan einskorðaðist eingöngu við 29. mars, sem enn er settur dagur útgöngu Breta úr ESB.

Í dag mun það þó mögulega breytast en samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórn landsins gæti Brexit tafist í skamma hríð eða mun lengur. Lengd tafarinnar veltur á því hvort að þingmenn muni styðja samning Theresu May fyrir 20. mars en forsætisráðherrann hefur boðað þriðju atkvæðagreiðsluna um samning sinn í næstu viku en engin dagsetning hefur þó verið sett fram, að því er fram kemur á vef BBC. 

Munu fresta útgöngunni í lengri tíma ef samningnum verður hafnað

Forsætisráðherrann hefur varað við því að ef að samningurinn, sem hefur verið hafnað tvisvar af þinginu, verði ekki samþykktur, muni ríkisstjórnin þurfa að fresta útgöngu landsins úr sambandinu í lengri tíma, sem þýðir að Bretar yrðu að taka þátt í kosningum til Evrópuþingsins í maí. 

„Ég held ekki að sú útkoma yrði sú rétta, en neðri deildin verður að horfast í augu við afleiðingar þeirra ákvarðanna sem hún hefur tekið,“ segir May. Þingmenn Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) sem tryggja ríkisstjórn May þingmeirihluta og höfnuðu samningi hennar í bæði skiptin ræðir nú við ríkisstjórnina og er vonast til að finna megi lausn sem tryggir stuðning flokksins við samning May í næstu viku.

Forseti ráðherraráðs ESB, Donald Tusk, segir í morgun á Twitter að hann sé reiðubúinn til að afla stuðnings meðal ríkja Evrópusambandsins um að veita Bretum tækifæri á að framlengja 50. grein Lissabonsáttmálans og þar með að fresta Brexit um óákveðinn tíma, ef að Bretum finnist nauðsynlegt að endurhugsa Brexit áætlanir sínar og tryggja stuðning heimafyrir við þær áætlanir.