Samkvæmt nýrri könnun sem Prósent hefur sent frá sér segjast fleiri líklegri en ólíklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn með Guðlaug Þór Þórðarson sem formann fremur en Bjarna Benediktsson, sem verið hefur formaður flokksins frá árinu 2009.

Af þeim sem svöruðu sögðust samtals 36 prósent af þeim 1.072 sem tóku afstöðu vera líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn undir forystu Guðlaugs Þórs en Bjarna. Sextán prósent sögðust hins vegar vera ólíklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn með Guðlaug Þór við stjórnvölinn. Þá sögðust alls 48 prósent hvorki líklegri né ólíklegri til að kjósa flokkinn með Guðlaug sem formann.

Af þeim sem segjast vera Sjálfstæðismenn segist fjórðungur vera líklegri til að kjósa flokkinn með Guðlaug sem formann og annar fjórðungur líklegri.

Spurt var: Værir þú líklegri eða ólíklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heldur en undir forystu Bjarna Benediktssonar?

Netkönnun Prósents byggir á 1.341 svari úr 2.600 manna úrtaki meðal könnunarhóps fyrirtækisins sem í eru einstaklingar átján ára og eldri. Svarhlutfallið var þannig 51 prósent. Gögnum var safnað frá 1. til 4. nóvember 2022. „Gögn eru vigtuð til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu,“ segir í skýringum Prósent.