Yfirkjörstjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, mun ekki aðhafast frekar vegna kvörtunar framboða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Diljár Mistar Einarsdóttur aðstoðarkonu um meintan aðgang Magnúsar Sigurbjörnssonar, bróður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, að kjörskrá og flokksskrá Sjálfstæðisflokksins.
Þau Guðlaugur Þór og Áslaug Arna sækjast bæði eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en Diljá Mist eftir því þriðja.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá yfirkjörstjórn sem lauk fundi sínum fyrir skömmu. Athugasemdirnar voru gerðar með vísan til annarrar málsgreinar fjórðu greinar prófkjörsreglna flokksins um jafnan aðgang frambjóðenda að upplýsingum. Því var haldið fram að Magnús hefði haft aðgang að flokksskránni, þar sem finna má nákvæmar og stöðugt uppfærðar upplýsingar um flokksmenn í aðdraganda prófkjörsins og eftir að frestur til framboðs var runninn út. Prófkjörið fer fram á morgun og laugardag.
„Magnús Sigurbjörnsson hafði aðgang að flokksskrá Sjálfstæðisflokksins vegna verkefna sem hann vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Verkefni Magnúsar snerist að því að tengja saman flokksskrá og nýtt tölvupóstkerfi flokksins. Magnús hafði áður unnið hjá flokknum í rúm fjögur ár. Var aðgangi Magnúsar að flokksskrá lokað þann 1. júní sl.,“ segir í tilkynningu frá yfirkjörstjórn. Þar segir enn fremur að Magnús hafi aldrei haft aðgang að kjörskrá flokksins vegna prófkjörsins.
Skráði sig síðast inn 10. maí
Farið var yfir innskráningar Magnúsar í flokkskránna og var síðasta innskráning hans 10. maí og gerð að beiðni starfsmanns flokksins vegna verkefnis sem Magnús vann að fyrir hann.
„Framboðsfrestur vegna prófkjörsins rann út föstudaginn 14. maí sl. Kjörskrá var afhent frambjóðendum þann 18. maí. Þá var viðbót við kjörskrá sem m.a. innihélt nýskráningar aðgengileg öllum framboðum kl. 10.00 mánudaginn 31. maí. Fyrir liggur að frambjóðendur sem vildu nýta sér þau gögn hófu úthringingar strax í kjölfarið.“
Af framangreindum ástæðum taldi yfirkjörstjórnin að athugasemdirnar ættu ekki við rök að styðjast og að ekki hafi verið brotið gegn prófkjörsreglum. Því verði ekki aðhafst frekar vegna athugasemda framboðanna tveggja.