Landsmenn ganga flestir að kjörborði Alþingiskosninganna í dag en kjörstaðir opnuðu klukkan 9 í morgun. Þá verður hægt að greiða atkvæði til klukkan 22 í kvöld.
Aðeins hefur dregið úr úrkomumagni fyrir veðurspá í dag. Það ætti ekki að vera vandamál fyrir fólk að komast á kjörstað að sögn vakthafandi veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Hins vegar sé stóra spurningin sú hvort að hægt verði að koma atkvæðakössum á rétta staði fyrir talningu. Gera megi ráð fyrir versnandi veðri í nótt.
Fréttablaðið mun halda lesendum sínum vel upplýstum í allan dag og fram á rauðanótt hér á frettabladid.is. Ritstjórn færir lesendum nýjustu tölur úr öllum kjördæmum um leið og þær berast, viðbrögð spekinga, stjórnmálaleiðtoga, nýrra þingmanna og þeirra sem sitja eftir með sárt ennið.
Hægt er að nálgast upplýsingar um kjörstað hvers og eins á vef Reykjavíkurborgar.
