Öll ríki Bandaríkjanna, auk Washington, D.C., hafa nú staðfest úrslit forseta- og þingkosninganna sem fóru fram þar í landi þann 3. nóvember síðastliðinn og hafa þau tilnefnt kjörmennina sem koma til með að greiða atkvæði sín til forseta og varaforseta Bandaríkjanna síðar í dag. Biden er með 306 kjörmenn út frá kosningunum en 270 kjörmenn þarf til að vinna kosningarnar.

Joe Biden fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum, sem voru óvenju flóknar í ár vegna fjölda utankjörfundaratkvæða, en fjölmiðlar vestanhafs lýstu Biden sigurvegara laugardaginn 7. nóvember, fimm dögum eftir að Bandaríkjamenn gengu til kosninga. Pennsylvanía, og 20 kjörmenn ríkisins, gerði þar útslagið og tryggði Biden sigurinn.

Neitar að játa sig sigraðan

Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, hefur neitað að játa sig sigraðan og höfðað tugi mála fyrir dómstólum þar sem hann hefur reynt að fá úrslitum kosninganna snúið vegna meints kosningasvindls Demókrata. Það hefur aftur á móti ekki gengið þar sem nánast öllum málum hefur verið vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum.

Þannig hafnaði til að mynda Hæstiréttur Bandaríkjanna um helgina kröfum Trumps og ríkissaksóknara Texas um að ógilda atkvæðin í fjórum lykilríkjum, en athygli vekur að af níu dómurum við réttinn hafa sex verið skipaðir af Repúblikanaforseta, þar af þrír af Trump sjálfum. Niðurstaða réttarins innsiglaði ósigur Trumps en hann er þó enn harður á því að baráttunni sé ekki lokið.

Kjörmenn koma saman í dag

Um er að ræða 538 kjörmenn en í öllum ríkjum nema tveimur, Maine og Nebraska, hlýtur sá sem fær fleiri atkvæði í kosningunum alla kjörmenn ríkisins. Hvert ríki er með jafn marga kjörmenn og þingmenn ríkisins, það eru þingmenn innan öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar. Washington, D.C., er þó með þrjá kjörmenn, líkt og ef um ríki væri að ræða.

Kjörmennirnir koma saman í hverju ríki fyrir sig og greiða atkvæði til forseta og varaforseta en misjafnt er eftir ríkjum hvort kjörmennirnir þurfi að kjósa þann sem fékk fleiri atkvæði í ríkinu. Oftast eru kjörmenn flokkanna aðilar sem hafa verið hliðhollir flokknum í gegnum tíðina til að tryggja kjör þeirra frambjóðanda.

Atkvæðin formlega talin þann 6. janúar

Vegna þess hve umdeildar forsetakosningarnar í ár hafa verið, og þeirrar staðreyndar að Trump neiti enn að játa sig sigraðan, hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana til að tryggja öryggi kjörmanna þegar þeir greiða atkvæði sín en gert er ráð fyrir að mótmæli brjótist út víða.

Hvert ríki fyrir sig mun síðan telja atkvæðin þegar allir kjörmenn hafa kosið og tilkynna úrslitin í kjölfarið. Atkvæðin verða síðan talin opinberlega þegar nýkjörið Bandaríkjaþing kemur saman þann 6. janúar næstkomandi og mun Mike Pence, sitjandi varaforseti Bandaríkjanna, tilkynna úrslitin þegar Biden er kominn með 270 kjörmenn.

Repúblikanar að renna út á tíma

Repúblikanar eru nú að renna út á tíma og eru möguleikar þeirra til þess að fá úrslitum kosninganna snúið fáir en eftir að atkvæðin eru talin 6. janúar 2021 verður kosningunum formlega lokið. Engu að síður er gert ráð fyrir að Repúblikanar innan þingsins muni mótmæla harðlega þegar atkvæðin verða talin.

Að því er kemur fram í frétt New York Times túlka margir þingmenn stjórnarskrá Bandaríkjanna sem svo að hægt sé að mótmæla úrslitum einstakra ríkja en til þess að mótmælin séu tekin gild þarf alla vega einn þingmaður úr fulltrúadeildinni og einn þingmaður úr öldungadeildinni að skrifa undir.

Slíkt hefur ekki gerst frá árinu 2005 en ef til þess kemur þarf að stöðva talninguna undir eins þar sem þingmenn rökræða málið og greiða síðan atkvæði um hvort ógilda eigi atkvæði ríkisins. Meirihluti beggja deilda þurfa að samþykkja ógildinguna en þar sem Demókratar eru í meirihluta innan fulltrúadeildarinnar er verulega ólíklegt að Repúblikanar nái sínu fram.