Ingi Tryggva­son, for­maður yfir­kjör­stjórnar í Norð­vestur­kjör­dæmi, segir í sam­tali við frétta­stofu Vísis að kjör­gögnin hafi ekki verið inn­sigluð um leið heldur geymd í læstum sal á hótelinu. Hann vísar því á bug að það sé nokkuð at­huga­vert við það.

Magnús Norð­dahl, odd­viti Pírata í kjör­dæminu, segir í Face­book-færslu að réttast væri að kjósa aftur í kjör­dæminu þar sem trú­verðug­leiki kosninganna sé enginn. „Eina leiðin til að leysa úr þessu er að endur­taka kosningarnar í Norð­vestur­kjör­dæmi og tryggja gagn­sæi og að farið sé eftir lögum og reglum,“ segir hann.

„Hvernig eiga kjós­endur í þessu landi að treysta lýð­ræðis­legu ferli þegar kjör­gögn eru ekki inn­sigluð eftir talningu í morgun, um­boðs­menn lista ekki látnir vita af endur­talningu at­kvæða,“ spyr Magnús.

Hann bendir á að kjör­gögnin voru vistuð ó­inn­sigluð í sex klukku­stundir á meðan talninga­fólk fór heim. Kjör­gögnin voru geymd í sal Hótel Borgar­fjarðar en gestir voru á hótelinu yfir nóttina.

„Breytingar verða á fjölda ó­gildra og auðra at­kvæða milli talninga. Trú­verðug­leiki talningarinnar í Norð­vestur­kjör­dæmi er al­gjör­lega farinn og þar með trú­verðug­leiki kosninganna sjálfra,“ segir Magnús.

Ingi segir þetta vera sama fyrir­komu­lag og hefur verið lengi. Kjör­gögnin hafi aldrei veið inn­sigluð þegar talningar­fólk fer heim að hvíla sig. „Þetta er bara vinnu­lag sem er búið að vera eins lengi og ég veit.“

„Það er ekkert inn­siglað, það er engin að­staða til að inn­sigla þetta,“ segir Ingi. „Menn ganga ekkert alveg frá þessu. Auð­vitað væri það hægt, það væri náttúru­lega hægt að klára þetta en þá væru menn að bara fram á miðjan dag og væru þá kannski ekkert búnir að sofa í tvo sólar­hringa.“

Ingi vísar því á bug að nokkuð sé at­huga­vert við þessi vinnu­brögð. „Það hafa aldrei verið nein vanda­mál í sam­bandi við þetta,“ segir hann.