Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir í samtali við fréttastofu Vísis að kjörgögnin hafi ekki verið innsigluð um leið heldur geymd í læstum sal á hótelinu. Hann vísar því á bug að það sé nokkuð athugavert við það.
Magnús Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, segir í Facebook-færslu að réttast væri að kjósa aftur í kjördæminu þar sem trúverðugleiki kosninganna sé enginn. „Eina leiðin til að leysa úr þessu er að endurtaka kosningarnar í Norðvesturkjördæmi og tryggja gagnsæi og að farið sé eftir lögum og reglum,“ segir hann.
„Hvernig eiga kjósendur í þessu landi að treysta lýðræðislegu ferli þegar kjörgögn eru ekki innsigluð eftir talningu í morgun, umboðsmenn lista ekki látnir vita af endurtalningu atkvæða,“ spyr Magnús.
Hann bendir á að kjörgögnin voru vistuð óinnsigluð í sex klukkustundir á meðan talningafólk fór heim. Kjörgögnin voru geymd í sal Hótel Borgarfjarðar en gestir voru á hótelinu yfir nóttina.
„Breytingar verða á fjölda ógildra og auðra atkvæða milli talninga. Trúverðugleiki talningarinnar í Norðvesturkjördæmi er algjörlega farinn og þar með trúverðugleiki kosninganna sjálfra,“ segir Magnús.
Ingi segir þetta vera sama fyrirkomulag og hefur verið lengi. Kjörgögnin hafi aldrei veið innsigluð þegar talningarfólk fer heim að hvíla sig. „Þetta er bara vinnulag sem er búið að vera eins lengi og ég veit.“
„Það er ekkert innsiglað, það er engin aðstaða til að innsigla þetta,“ segir Ingi. „Menn ganga ekkert alveg frá þessu. Auðvitað væri það hægt, það væri náttúrulega hægt að klára þetta en þá væru menn að bara fram á miðjan dag og væru þá kannski ekkert búnir að sofa í tvo sólarhringa.“
Ingi vísar því á bug að nokkuð sé athugavert við þessi vinnubrögð. „Það hafa aldrei verið nein vandamál í sambandi við þetta,“ segir hann.