Yfir­kjör­stjórn í Suður­kjör­dæmi er nú komin saman í Fjöl­brauta­skóla Suður­lands á Sel­fossi á­samt um­boðs­mönnum fram­boðs­lista þar sem þau funda áður en endur­talning at­kvæða hefst klukkan sjö í kvöld. Talning at­kvæðanna verður fyrir opnum tjöldum en kjör­gögn bárust í hús fyrir skömmu.

For­maður yfir­kjör­stjórnar í Suður­kjör­dæmi greindi frá því fyrr í dag að á­kveðið hafi verið að ráðast í endur­talningu eftir að fjórir stjórn­mála­flokkar óskuðu eftir því. Einn flokkur bættist síðan við í dag og því höfðu fimm flokkar í heildina óskað eftir endurtalningu.

Mjótt var á munum í kjör­dæminu en sjö at­kvæðum munaði á lista Vinstri grænna, sem náðu ekki inn manni, og Mið­flokksins, sem náði inn manni. Vinstri græn fengu 2.200 atkvæði í kjördæminu en Miðflokkurninn 2.007 atkvæði.

Gera má ráð fyrir að talning at­kvæðanna geti dregist fram á kvöld og því ó­ljóst hve­nær niður­stöður muni liggja fyrir. Formaður kjörstjórnar greindi frá því í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að hann vonaðist til að talningin myndi taka þrjár til fimm klukkustundir.

Komi í ljós að það hafi verið gerð mis­tök við talningu má búast við sömu hring­ekju og fór af stað í gær eftir endur­talningu í Norð­vestur­kjör­dæmi, þar sem fimm duttu út af þingi og aðrir fimm komu inn.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir að ef í ljós komi smá skekkja leiði það til þess að jöfnunarmanna hringekjan fari af stað. „Hún geti þeytt einum manni inn og öðrum út ef að það reynist einhver skekkja þar.“ Þá sé ómögulegt að vita fyrir fram hvaða áhrif endurtalning geti haft.

Aðspurður segir Grétar Þór mál af þessum toga ekki hafa komið upp áður í nýja kosningakerfinu en núverandi kjördæmaskipan hefur verið óbreytt frá árinu 1999.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Yfirkjörstjórn fundaði með umboðsmönnum framboðslista fyrir talninguna.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Teljarar verða að næstu klukkutímana.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari