Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla um ganginn í rannsókn á framkvæmd endurtalningar í Norðvesturkjördæmi. Þeir umboðsmenn stjórnmálaflokka sem Fréttablaðið ræddi við í gær hafa ekki verið boðaðir í skýrslutöku.

„Ég á þó von á að verða boðaður í skýrslutöku í ljósi þess sem ég hef lýst opinberlega um framkvæmdina,“ segir Davíð Magnús Norðdahl, umboðsmaður Pírata í kjördæminu.

Að mati þingmanna sem Fréttablaðið hefur rætt við gæti Kjörbréfanefnd þingsins skilað af sér niðurstöðu um tillögu að réttmætu kjöri þingmanna til þingsins, þótt lögreglurannsókninni sé ólokið. Skipan allrar nefndarinnar mun liggja fyrir í dag. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, segir krefjandi tíma fram undan:

„Þetta er vandasamt og mjög mikilvægt verkefni. Mér finnst skipta öllu máli að undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar gangi hreint til verks og rannsaki málið til hlítar,“ segir Þórunn.