Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, brýndi fyrir lands­mönnum að gæta betur að sér á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

„Það er greini­legt að fólk er farið að slaka mjög, mjög mikið á, þetta eru orðnar kjör­að­stæður fyrir veiruna til að geta náð sér á strik aftur ef hún kemst á annað borð inn í svona partí.“

Sótt­varna­læknir greindi einnig frá því að í ljósi hóp­sýkingar sem varð um helgina yrði hvorki hægt að slaka á fjölda­tak­mörkunum, auka ferða­manna­kvóta né lengja opnunar­tíma skemmti­staða. Fjögur virk smit eru nú á landinu og 443 ein­staklingar í sótt­kví.

Hóp­smit olli usla

Hóp­smitið sem um ræðir varð eftir að knatt­spyrnu­kona kom til landsins frá Banda­ríkjunum þann 17. júní og greindist ekki með Co­vid-19 við skimun á landa­mærunum þrátt fyrir að hún væri með veiruna. Hún hafi í kjöl­farið spilað fót­bolta­leik og mætt í veislur sem varð til þess að fjórir smituðust og tugir voru settir í sótt­kví.

Þór­ólfur tók þó sér­stak­lega fram að ekkert í hátt­erni eða fari stúlkunnar gæfi til­efni til að kenna henni um smitin. „Hún virðist hafa farið eftir öllu reglum,“ bætti Þór­ólfur við.

Enginn heims­endir

„Ég held að þessi dæmi sýni fram að þessi veira sé langt frá því farin úr okkar lífi.“ Það ætti að koma fáum á ó­vart. „Þetta er enginn heims­endir, þetta er ná­kvæm­lega það sem við erum búin að segja að geti gerst.“

Þá hafa til­tölu­lega fá smit greinst við landa­mærin að sögn sótt­varna­læknis. Af þeim 17 þúsund far­þegum sem hafa komið til landsins frá því landa­mærin opnuðuð þann 15. júní hafa rúm­lega tólf þúsund sýni verið tekin en að­eins fjórir greinst með virk smit.

„Það er ekki mikið um smit meðal far­þega sem er að koma og er það á­nægju­legt.“

Á­fall að herða tak­markanir frekar

Þór­ólfur segir þó að til skoðunar sé að setja ein­stak­linga sem koma frá há­á­hættu­svæðum í nokkurra daga sótt­kví og jafn vel skima þá aftur eftir nokkra daga. Sjá þurfi hvernig hóp­sýking helgarinnar verði áður en teknar verða á­kvarðanir um það.

Þá brýndi sótt­varna­læknir fyrir öllum þeim sem koma frá svæðum þar sem smit eru út­breidd að hafa hægt um sig fyrstu vikurnar eftir komuna til landsins, forðast manna­mót og virða tveggja metra regluna svo fátt eitt sé nefnt.

„Þó það hafi komið bak­slag þá þarf ekki að ör­vænta það skiptir mestu að al­menningur taki sig á og gangi betur að sýkingar­vörnum og al­mennum smit­vörnum.“ Þjóðin þurfi að gera betur og halda á­fram að virða smit­varnar­reglur. „Það yrði tölu­vert á­fall ef herða þyrfti tak­markanir frekar eftir þær fórnir sem hafa verið færðar á undan­förnum mánuðum.“