„Þetta er algerlega fráleit tillaga. Við höfum talað fyrir því að samkeppnisundanþágur mjólkuriðnaðarins verði afnumdar. Þarna er verið að taka algerlega skakkan pól í hæðina að okkar mati. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt okkur að verðlagsþróunin hefur til dæmis verið hagstæðari þegar kemur að kjöt- en mjólkurvörum einmitt vegna þess að þar er meiri samkeppni og neytendur hafa notið þess,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um frumvarp tveggja þingkvenna Framsóknarflokksins.

Í frumvarpinu leggja þær Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir til að afurðastöðvar í kjötiðnaði verði undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga en sambærilegar undanþágur gilda um mjólkuriðnaðinn.

Ólafur bendir á að íslenskur landbúnaður sé verndaður fyrir erlendri samkeppni með gríðarháum tollum. „Þegar tollkvótarnir sem samið var um við ESB eru að fullu komnir til framkvæmda er umfangið um átta til tíu prósent af innanlandsmarkaðnum eins og hann var á síðasta ári. Innlendri kjötframleiðslu er nú eiginlega engin vorkunn að standa af sér samkeppni sem er kannski um tíu prósent af markaðnum.“

Halla Signý segir frumvarpið fyrst og fremst lagt fram sem viðbrögð við slæmri stöðu í sauðfjárrækt. Því sé ekki ætlað að leysa öll vandamál greinarinnar en sé ein leið til þess.

„Afkoman hefur verið slök og ein af þeim leiðum sem nefndar hafa verið til úrbóta er að skoða afurðageirann. Það var 30 prósenta niðurskurður í afurðaverði til bænda á síðasta ári og þetta er enn að versna,“ segir Halla Signý.

Hún segir að óskir hafi komið frá afurðastöðvunum um að geta unnið saman á ýmsum sviðum til þess að hagræða í rekstri.

„Þær gætu sameinast eða gert samkomulag um verkaskiptingu en þannig værum við með stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Þetta skiptir líka gríðarlegu máli til dæmis þegar kemur að markaðssetningu erlendis.“

Þá bendir Halla Signý á að þróunin undanfarin misseri hafi verið sú að innflutningur hafi aukist umtalsvert. „Ef við ætlum okkur að ýta undir og halda utan um okkar góðu framleiðslu þá er þetta ein leiðin.“

Ríkið viðurkenndi bótaskyldu vegna ferskra eggja

Í gær var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur réttarsátt þar sem ríkið viðurkenndi bótaskyldu í máli þar sem fersk egg voru gerð upptæk af tollvörðum.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir það hafa legið fyrir árum saman að íslensk löggjöf sem banni innflutning á fersku kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk brjóti í bága við EES-samninginn.

„Það er hins vegar ekki enn búið að breyta löggjöfinni. Bæði þetta mál og málið í síðustu viku þar sem ferskt kjöt var aftur gert upptækt sýna fram á nauðsyn þess að lagabreytingum sé hraðað. Bæði til að tryggja réttaröryggi innflytjenda og eins til að forða íslenska ríkinu frá frekari skaðabótamálum.“