Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari og formaður Dómarafélagsins hefur verið settur Umboðsmaður Alþingis. Hann mun sinna starfinu fram til næsta vors ásamt kjörnum Umboðsmanni, Tryggva Gunnarssyni sem vinnur nú að gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis er heimilt, að beiðni umboðsmanns, að setja annan mann til að sinna starfi umboðsmanns, ásamt kjörnum umboðsmanni, hafi honum verið falin sérstök tímabundin verkefni af hálfu Alþingis. Það var forsætisnefnd þingsins sem tók ákvörðun um setningu Kjartans Bjarna í embættið.

Kjartan Bjarni starfaði sem lögfræðingur hjá embætti umboðsmanns um tveggja ára skeið eftir að hann lauk laganámi en hann er auk meistaraprófs í lögum með framhaldspróf í stjórnskipunar- og evrópurétti frá London School of Economics. Eftir tveggja ára starf sem lögfræðingur hjá embættinu starfaði hann sem aðstoðarmaður umboðsmanns á árunum 2006 til 2009.

Þá hefur Kjartan starfað við EFTA dómstólinn og sinnt stundakennslu í stjórnsýslurétti og starfsmannarétti við Lagadeild Háskóla Íslands og Háskólann Á Bifröst.

Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur árið 2015 og var kjörinn formaður Dómarafélags Íslands árið 2017.