Samkomulag um hlutverk og umgjörð nýrrar nefndar, Kjaratölfræðinefndar, var undirritað í dag á samráðsfundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.

Nefndin er samstarf heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag og á að starfa til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Henni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á þeim hagtölum sem mestu varða við gerð kjarasamninga.

Aðilar að nefndinni eru forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.

Félags- og barnamálaráðherra skipar einn fulltrúa frá hverjum aðila til fjögurra ára í senn eftir tilnefningum þeirra sem eiga aðild að nefndinni. Formann nefndarinnar skipar hann án tilnefningar.