Borgarstjórn felldi í dag fjögurra liða tillögu Sjálfstæðisflokksins, svokallaðan „kjarapakka“, um lækkun út­svars, rekstrar­gjalda heimilanna og á byggingar­réttar­gjöldum.

Allar tillögurnar fjórar voru felldar af meirihluta borgarstjórnar. Tillagan um lækkun útsvars var felld með 13 atkvæðum gegn 9. Fulltrúi Flokks fólksisn sat hjá. Annar liður, um arðgreiðsluáform OR, var felldur með 12 atkvæðum gegn 10. Fulltrúi Flokks fólksisn sat hjá.

Þriðji liður, um kaup og skipulagningu á Keldnalandinu var felldur með 12 atkvæðum gegn 10. Fulltrúi Flokks fólksins sat hjá. Loks var fjórði liðurinn, um byggingarréttargjöld, felldur með 12 atkvæðum meirihlutans gegn 10 atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokksins sat hjá.

Borgarfulltrúar flokksins kynntu tillögur sínar í Ráðhúsinu í gær. Eyþór Arnalds, oddviti flokksins, sagði að með tillögunum vildi flokkurinn liðka fyrir kjaraviðræðunum með þátttöku stærsta sveitarfélags landsins.

Fyrsta tillagan sneri að lækkun útsvars borgarinnar úr 14,52 prósentum í 14 prósent. Áætlað er að slík lækkun myndi nema 1,9 milljarði á árinu 2019. Lögðu Sjálfstæðismenn til að aðgerðin yrði fjármögnum með bættum innkaupum og auknu aðhaldi í útboðum.

Í öðru lagi lagði flokkurinn til að rekstrargjöld heimilanna yrðu lækkuð um því sem myndi nema um 36 þúsund krónum á ársgrundvelli. Þannig yrði að­gerðin fjár­mögnuð með breyttum arð­gr­eiðslu­á­formum, til að mynda með lækkun gjald­töku á borð við upp­hitunar­kostnað, raf­orku­verð, sorp­hirðu­gjald eða vatns­gjald.

Þriðja tillagan fól það í sér að borgin myndi semja við ríkið um kaup á Keldna­landinu án skil­yrða um aðrar fjár­veitingar ríkisins. Borgin hefji í kjöl­farið handa við skipu­lagningu landsins fyrir stofnanir, fyrir tæki og heimili.

Í fjórða lagi var lagt til að borgar­stjórn sam­þykkti að stilla byggingar­réttar­gjöldum í borgar­landinu í hóf með því að tryggja fram­boð fjöl­breyttra lóða.