Kristrún Frostadóttir, formaður samfylkingarinnar kynnti í dag kjarapakka flokksins sem inniheldur afmarkaðar breytingartillögur við fjárlög sem rædd verð á Alþingi í vikunni.

Að hennar eigin sögn eru tillögurnar hannaðar til þess að verja heimilisbókhald landsmanna og vinna gegn verðbólgu.

„Samfylkingin vill verja heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu. Á sama tíma viljum við vinna gegn verðbólgu með aðhaldi þar sem þenslan er í raun og veru,“ segir Kristrún í tilkynningu sem send var til fjölmiðla í dag. „Þess vegna kynnir Samfylkingin nú kjarapakka með afmörkuðum breytingum á fjárlögum fyrir almenning.“

„Við viljum færa aðhald af almenningi og þangað sem þenslan er í raun,“ segir Kristrún. „Allt aðhald ríkisstjórnarinnar er lagt á almenning. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkar skatta með hækkun krónutölugjalda sem falla þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur. Samfylkingin vill sýna að það er hægt að fara aðra leið í þessum efnum.“

Oddný Harðardóttir og Jóhann Páll Jóhannsson voru ásamt Kristrúnu á fundinum í dag.
Mynd/Samfylkingin

13 milljarðar í kjarabætur

Í tillögum Samfylkingarinnar kemur fram að mælt er með því að 13 milljarðar verði settir í kjarabætur.

Meðal þess sem Samfylkingin leggur til í kjarabótamálum er að falla frá gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar en að hækka á móti fjármagnstekjuskatt. En farið verði fram á að hækki um 2,5% í stað 7,7% á milli ára

Þá leggur Samfylkingin einnig fram tillögu um að hækka eigi húsnæðisbætur til leigjenda um 10% og að koma eigi leigubremsu á leiguverð að danskri og skoskri fyrirmynd.

Tvöfalda ætti framlög til uppbyggingar en eins og komið hefur fram voru stofnframlög til íbúðabygginga helminguð samkvæmt fjárlögum fyrir 2023.

17 milljarðar gegn verðbólgu

Þá inniheldur kjarapakkinn einnig tillögur um 17 milljarða sem verja á í mótvægisaðgerðir gegn verðbólgu.

Þar ber helst að nefna tillögu um að hækka eigi fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25% sem myndi þó eingöngu falla á tekjuhæstu 10 prósent landsins.

Þá er einnig tillaga um að loka þurfi „ehf“ gatinu svokallaða þegar fólk telur fram launatekjur sínar sem fjármagnstekjur í gegnum eigu á einkahlutafélögum og fyrirtækjum.

Hægt er að sjá kjarapakka Samfylkingarinnar í heild sinni hér.