Dr. Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, segir íslenska sérfræðinga hafa vanmetið líftölur lundans fram að þessu, samkvæmt niðurstöðum útreikninga síðan í vor.

„Ég fékk sérfræðinga til að fara yfir þetta og þeir leiðréttu fyrir fugla sem fara úr kerfinu en eru ekki endilega dauðir. Þá hækkaði talan um tvö prósent, sem er svolítið mikið.“

Erpur segir að nú standi yfir endurreikningur á öllum merkingum, eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður. „Við erum að vonast til að fá út hvað hefur gerst í þessum stofni síðustu 50 árin, mjög nákvæmlega.“

Dr. Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands.
Mynd/Aðsend

Heit sjávarhitaskeið á um 35 ára fresti

Að sögn Erps koma heit sjávarhitaskeið á um það bil 35 ára fresti. „Sílum fækkar við þetta og þá fáum við mikið bakslag í ungaframleiðslu lunda,“ segir Erpur og rétt er að geta þess að síli eru aðalfæða lundans. Kísilþörungar nærast á kísil, og eru mikilvæg fæða rauðátu sem aftur er aðalfæða síla og seiða margra annarra tegunda.

„Svo uppgötvuðum við annan áhrifaþátt í vor, sem er kísilskortur í hafinu. Tilgátan er að skorturinn valdi gríðarlega miklum breytingum á öllu kerfinu en þeir eru fyrstir í svokölluðum vorblóma. Við það hrynja þessir stofnar sem treysta á að fæðuframboð rauðátu sé á réttum tíma. Ef það er lítill kísill í hafinu þá detta kísilþörungarnir út. Þeir eru fyrstir í blóma, og þá seinkar kerfinu.“

„Kvikindi eins og síli treysta á að allt gerist á réttum tíma. Ef allt gerist tveimur til þremur vikum seinna, þá drepast seiðin úr hungri.“

Ekki ljóst hvað hafi áhirf á kísilmagnið

Aðspurður hvað hafi áhrif á kísilmagnið svarar Erpur: „Við vitum það ekki alveg. Mælingar sýna þetta útslag mjög sterkt, en það er akkúrat þarna sem við sjáum lundavarpinu seinka um sautján daga, sem er gríðarlega mikið. Ofan á þetta koma hitastigsáhrif. Við erum nýbúin að uppgötva þetta, og ekki búin að gefa það út. Þetta er mjög merkilegt.“

Erpur segist telja að þetta sé í fyrsta sinn sem vísindamenn sjá næringarefni af þessu tagi stjórna tímasetningum á vistkerfum. „Þetta er ekki bara lundinn heldur humarinn og fleiri tegundir sem treysta á kísilinn. Þeir hafa fengið lélega nýliðun síðan 2003.“

Hann segir Íslendinga búa yfir mjög góðum gögnum um lundavarp, raunar langbestu gögnin af öllu tagi. „Við erum búin að merkja svo mikið af pysjum yfir 80 ára tímabil,“ segir hann. „Við höfum merkt hundruð ef ekki þúsundir á hverju ári.“

Ekki til sambærileg gagnasett yfir lunda í heiminum

Að sögn Erps eru ekki til sambærileg gagnasett yfir lunda í heiminum. Af orðum hans að dæma hefur tímasetning á lundavarpi verið almennt stöðug í gegnum áratugina.

„Alveg frá stríðinu er þetta aðeins að rokka til í tíma. Við fáum nákvæma dreifingu á tímasetningu varptímans fyrir hvert einasta ár.“

Hann segir kúrfuna hafa færst verulega til árið 2003. „Þá færist normalkúrfan allt í einu um eitt staðalform, sem er rosalega mikið. Varpinu seinkar í tíma og helst þannig til ársins 2015, og þá fer kísill­inn að aukast og varptíminn færist til baka.“