Kötturinn Jasmín, sem er húsköttur Katrínar Mixa, vakti eiganda sinn í morgun og kveinkaði sér yfir því að snærisbútur hafði verið bundinn þéttingsfast um rófu sína. Katrín, og dýralæknirinn sem losaði snærið af Jasmínu, telja þetta dýraníð.

Jasmín er útiköttur mikill. Katrín hjó eftir því í gærkvöld að hún hafði verið nokkuð lengur úti en vanalega, og í morgun vakti Jasmín hana með því að nudda sér af mikilli ákefð upp við eiganda sinn. „Hún mætir þarna með snæri aftan í sér. Það er ósköp þunnt en það er það fast bundið að ég gat ekki losað það. Það var mjög sárt fyrir hana þegar ég reyndi að losa snærið, hún bæði mjálmaði og hvæsti,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er í fyrsta sinn sem hún hvæsir á mig.“

Katrín fór með Jasmínu rakleiðis upp á dýraspítala. „Ég fer með hana til dýralæknis og hún sér að þetta er bara dýraníð,“ segir Katrín. „Hún náði þessu af og sér að það hefur myndast sár á rófunni. Þetta hefur líka þrengt verulega að blóðrásinni, en Jasmín virðist hafa sloppið við drep eða frekari afleiðingar,“ heldur hún áfram.

Of snemmt að segja til um varanlegar afleiðingar

Jasmínu heilsast að mestu vel, þó að of snemmt sé að segja til um hvort að snærisbúturinn muni hafa varanlegar afleiðingar á heilsu hennar. „Hún þarf að vera á verkja- og bólgustillandi lyfjum næstu daga. Hún er verulega eftir sig, maður sér það alveg. Hún sefur bara og er mjög lítil í sér og upptrekkt.

Það eru ekki neinar varanlegar afleiðingar að sjá, en það er aðeins of snemmt til að segja til. Við þurfum að halda henni inni og sjá hvort að hegðun hennar breytist eða hvort að skottið hennar sé eitthvað óvenjulegt. Ég kvíði fyrir því að halda henni inni, hún verður mjög óróleg.“

Katrín vill trúa því að þetta hafi frekar verið óvitaskapur barna, fremur en hreinn níðingsháttur. „Ég vil trúa því að þetta hafi verið einhver óvitaskapur í barni sem hefur bundið þetta í hálfkæringi. Mér finnst samt að fólk eigi að vita af þessu og hafa augun opin ef þau sjá eitthvað sambærilegt,“ segir Katrín að lokum.

Atvikið tilkynnt til Matvælastofnunnar sem dýraníð.