„Allra síst vil ég í opinbert orðaskak við kirkjuráð og forseta þess, biskup Íslands,“ segir Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, í bréfi til biskups Íslands og kirkjuráðs þar sem hann gagnrýnir harðlega afgreiðslu ráðsins í sumar á málum tengdum Skálholti.

Í bréfi sínu lýsir Kristján miklum vonbrigðum og því sem hann kallar „misheppnað orðalag í bókun kirkjuráðs“ og segir að hans „dýpstu vonbrigði“ séu að útkoman sé allt önnur en það sem hafi verið rætt er hann kom á fund ráðsins.

„Bið ég kirkjuráð að huga að því hversu fáránlega litlir fjármunir hafa runnið til framkvæmda og viðhalds í Skálholti,“ skrifar vígslu­biskupinn og nefnir sem dæmi að eftir „nokkurra ára stríð“ sé að ljúka endurbótum á fáeinum herbergjum í gistiálmu Skálholtsskóla sem orðið hafi verst úti vegna raka og mygluskemmda. Einnig hafi tekist „eftir miklar pælingar“ að byrja á fyrsta hluta af tröppum dómkirkjunnar.

„Engum hamri hefur verið lyft og því síður hefur pensli verið dýft í málningarfötu til viðhalds Skálholtskirkju í fjölda ára. Þrátt fyrir þá ályktun sem vísað er til að kirkjuráð muni standa við hefur enginn farið upp á þak til að setja svo mikið sem þakpapparæmu yfir versta þakleka kirkjunnar til bráðabirgða. Enn lekur kirkjan. Enn lekur skólinn á mörgum stöðum,“ lýsir biskupinn í Skálholti.

Enn fremur segir Kristján að þrátt fyrir nær 80 milljóna framkvæmdaáætlun og styrki sé fátt um framkvæmdir. „Ekki er enn farið að votta fyrir neinni ákvörðun varðandi verkáætlun um björgun kirkjunnar,“ skrifar biskupinn.

Að sögn Kristjáns eru það sömu aðilar sem vilja styðja við flutning og standsetningu á bókasafni staðarins og vilja leggja sitt af mörkum við endurnýjun á klukkum kirkjunnar. „Tjónið af því að slá á þessar fúsu hendur getur því orðið mikið fyrir utan álitshnekki sem af því getur hlotist að taka ákvarðanir án nauðsynlegrar forsendu eða ef ekki verður hægt að endurskoða þessa samþykkt kirkjuráðs hið fyrsta,“ skrifar hann. Verið sé að leika háska­leik með dýrmæti.

„Ég bara trúi því ekki að það sé vilji kirkjuráðs að senda frá sér svo niðurlægjandi samþykkt og skora á ykkur að taka hana til baka en öðrum kosti að endurskoða afstöðu ykkar í ljósi meiri og fyllri upplýsinga,“ segir vígslubiskupinn sem kveðst leggja heiður sinn að veði í embættinu og eiga því mikið undir því að mark sé tekið á orðum hans.

Þegar kirkjuráð tók bréf Skálholtsbiskups fyrir var bókað að ráðið stæði við fyrri samþykkt sína.