Biskup Íslands telur kirkjuna ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu sem boðberi kristinnar trúar í orði og verki þrátt fyrir að vera stærsta trúfélag landsins vegna þess hve stór hluti af eignasafni kirkjunnar hafi verið afhentur ríkinu. Þetta kemur fram í umsögn biskups um tillögu til þingsályktunar um fullan aðskilnað ríkis og kirkju.


Í umsögn sinni víkur biskup að svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi frá 1997. Þótt önnur trú og lífsskoðunarfélög njóti greiðslu sóknargjalda eins og þjóðkirkjan, liggi sérstaða kirkjunnar gagnvart þeim í þeim samningi.

Í umsögninni er vísað til þeirra jarða sem kirkjan hafi afhent ríkinu árið 1907 en þær hafi verið um fjórðungur allra jarða landsins á þeim tíma.

Í skýrslu sem unnin var fyrir kirkjuþing og snýr að rekstri og fjármálum þjóðkirkjunnar kemur fram að „með grófri nálgun má segja að í dag sé ríkið að greiða leigu sem nemur 5 aurum á fermetra af því landi sem það fékk á sínum tíma.“

Lögð er áhersla á þessi atriði, auk ákvæðis stjórnarskrár um þjóðkirkjuna, niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 og fleiri þátta sem biskup telur að þurfi að taka tillit til ef setja eigi lög um fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Lýsir biskup að endingu því viðhorfi að samfylgd kirkju og þjóðar hafi „verið farsæl um aldir“ og að skyldur kirkjunnar liggi ,„fyrst og fremst í því að rækta og viðhalda tengslunum við þjóðina“.