„Við höfum orðið vör við að það er töluverð andstaða við kirkjuna. Okkur finnst við ekki njóta sannmælis,“ segir Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju.
Kristrún Heimisdóttir, nýr varaforseti kirkjuþings, segir að öllum börnum á Íslandi hafi verið bannaður aðgangur að Jesú Kristi. Kristin þjóðleg gildi séu í hættu. Hún segir stjórnlaust undanhald hjá þjóðkirkjunni í íslensku samfélagi.
Laugarneskirkja ákvað í síðasta mánuði að afþakka heimsóknir skólabarna á vegum skólans á aðventunni. Davíð Þór segir gott að Kristrún tali umbúðalaust, en ýmislegt sé ósagt.
„Það má vera að Kristrún hafi litið á það sem við gerðum sem undanhald en við lítum fremur á okkar aðgerðir sem sáttaboð,“ segir Davíð Þór.
Þá segir Davíð Þór að Ísland sé orðinn hluti af miklu fjölbreyttara samfélagi en áður var. Laugarneskirkja hafi í raun aðeins tekið frumkvæði til að bregðast við breyttum tímum. Skólaheimsóknir hafi verið orðnar mjög umdeildar og andstaða við þær meðal margra kennara.
„Því fer fjarri að við afþökkum heimsóknir skólabarna. Börnin koma bara ekki með skólanum,“ segir Davíð Þór.
Að sögn Davíðs Þórs er það eitt dæmi um vanda kirkjunnar að víða sé henni meinað að auglýsa safnaðarstarf á sama hátt og skátar og íþróttafélög fái að gera.
„Okkur finnst það ekki sanngjarnt,“ segir sóknarpresturinn í Laugarneskirkju og bendir á að samspil þjóðkirkjunnar við fólk sé í báðar áttir.
„Við erum að reyna að spila ping-pong við samfélagið okkar, við viljum ekki vera í neinu stríði.“