Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, sem var haldinn í Breiðholtskirkju fyrir helgi, fordæmir ákvörðun Útlendingastofnunar að setja hælisleitendum sem vísa á úr landi og neita að fara í PCR próf þá afarkosti að neita þeim um húsaskjól og fæðispeninga.
„Það er verulega ámælisvert að íslensk stjórnvöld neyti aflsmunar og geri fólk vísvitandi að útigangsfólki í samfélagi sem vill hafa kristin gildi og mannréttindi að leiðarljósi. Eins er það óásættanlegt að fólk skuli vera sent aftur í aðstæður í Grikklandi sem eru á engan hátt öruggar, eins og margar alþjóðlegar skýrslur vitna um, og að eina val fólks sé í raun í hvaða landi það vilji vera á vergangi,“ segir í héraðsfundarályktuninni.
Í ályktuninni er einnig vitnað í Matteusarguðspjall 25:42-43,45.
„Meðfylgjandi er tilvitnun í orð Frelsarans: Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, 43 gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín. Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér,“ segir í ályktuninni.
Þá er skorað á forstjóra útlendingastofnunar og dómsmálaráðherra að hlutast til um að þessari aðgerð verði hætt án tafar.