Auglýsing Þjóðkirkjunnar fyrir sunnudagaskóla kirkjunnar þar sem sjá mátti svokallaðan Trans-Jesú hefur verið fjarlægð af Facebook síðu kirkjunnar sem og vefsíðu hennar. Kirkjuþing fer fram í dag.

Auglýsingin hefur vakið mikla athygli undanfarið. Hana má meðal annars finna á einum strætisvagni og þar til í dag var hún einnig notuð sem aðalmynd á Facebook síðu þjóðkirkjunnar.

Nú er þó ljóst að hana er hvergi að finna en heimildir Fréttablaðsins herma að myndbirtingin hafi valdið nokkrum deilum meðal forsvarsmanna kirkjunnar.

Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, deildi myndinni á Facebook. Hún hefur nú verið tekin út.
Fréttablaðið/Skjáskot

„Já, það var nú bara af því að við erum að skipta. Það eru náttúrulega margar myndir í þessu safni og margar myndir teiknaðar af Láru Garðarsdóttur,“ segir Pétur Georg Markan, upplýsingafulltrúi kirkjunnar í samtali við Fréttablaðið.

„Okkur langaði bara að nota fleiri myndir. En það er alveg rétt að Jesú myndin var mikið til umræðu,“ segir Pétur. Auglýsing sem einnig var teiknuð af Láru og birtist í apríl hefur ekki verið fjarlægð.

Er Trans-Jesú væntanlegur aftur?

„Já, alveg eins. Það hefur ekki verið tekin önnur ákvörðun og sá er ennþá á strætó sem keyrir um götur borgarinnar. Þannig fólk getur séð hann þar en uppleggið var að Lára fékk að teikna nokkrar myndir sem við ætlum að nota í þessa kynningu og nú er skírnarþema, ef ég man rétt.“

Þannig þið eruð ekki að draga Trans-Jesú til baka?

„Nei, nei nei. En hinsvegar er það alveg ljóst að þessi mynd skapaði allskonar umræðu. Og við drögum líka ákveðinn lærdóm af því, það er ekki spurning. Bara eins og með öll verkefni.“

Líkt og Fréttablaðið greindi frá var myndbirtingin af hinum brjóstgóða Jesú nokkuð umdeild. Tjáðu margir sig á Facebook síðu þjóðkirkjunnar og lýstu einhverjir yfir vandlætingu vegna birtingarmyndarinnar á frelsaranum.

„Kristur er allra – ekki bara hvítra gagn­kyn­hneigðra karl­manna. Í þessu ljósi er Kristur allt í einu – getur verið karl með brjóst – kona með skegg­rót. Jesú gæti líka verið non-binary og trans,“ skrifaði Hildur Björk Hörpudóttir þá.

Fréttinni með auglýsingunni á vef Þjóðkirkjunnar hefur einnig verið eytt.
Fréttablaðið/Skjáskot