Patrick Breen, staðgengill biskups kaþólsku kirkjunnar og sóknarprestur í Landakotskirkju segir í samtali við Fréttablaðið að nóg pláss sé í kirkjunni fyrir fimmtíu manns til að koma saman, þrátt að fyrir tíu manna samkomubann sé í gildi. Hægt sé að virða tveggja metra reglu og aðrar sóttvarnareglur þó svo að fleiri en tíu séu inni í kirkjunni samtímis.

Líkt og greint var frá fyrr í dag braut Landakotskirkja samkomubann í annað sinn þegar allt of margir voru komnir saman þar inni til messu öðrum tímanum í dag. RÚV greindi frá málinu en það er nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Aðspurður hvers vegna svo margir hafi verið saman komnir við messuna í dag segir Patrick hann telji það vera í lagi vegna þess að kirkjan sé svo stór. „Mér finnst að fólk eigi að fara eftir reglum, vera með gímur og halda tveggja metra fjarlægð en það er pláss fyrir fleiri í kirkjunni finnst mér," segir Patrick í samtali við Fréttablaðið.

Lögregla mætti á staðinn í dag og taldi þá alls fimmtíu og einn manns inni í kirkjunni. Kirkjan hefur þó aðeins leyfi til að hleypa inn tíu samtímis, nema við jarðafarir þegar fimmtíu manns mega koma saman.

Fréttablaðið leitaðist svara við því hvers vegna kirkjan hefði brotið á samkomutakmörkunum í annað sinn í dag. Patrick vildi ekki tjá sig um það en sagði það jafnframt ekki koma til greina að banna fólki að koma í messu. „Við munum ekki halda messur ef að við megum bara hleypa tíu inn í einu, við bönnum fólki ekki að koma í kirkju. Ég get ekki tjáð mig meira um málið eins og er, við eigum eftir að ræða við biskup og sjá hvað við gerum," segir Patrick.

Messan sem fram fór í dag var fyrir pólskumælandi einstaklinga en Séra Rafał Sikorski var prestur í messunni. Hann kvaðst ekki vera nógu vel að sér í ensku til að geta tjáð sig um málið.