Kirkjuþing hefur samþykkt tillögu séra Solveigar Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskups á Hólum, um stefnumótunarvinnu fyrir þjóðkirkjuna í málefnum innflytjenda og flóttafólks.

Solveig Lára fagnar skrefinu, enda séu um 56.000 innflytjendur hér á landi. Inni í þeirri tölu séu ekki hælisleitendur.

„Kirkjan hefur unnið mikið með þessu fólki og vill fyrst og fremst vinna með fólki í neyð,“ segir Solveig Lára.

Mikið starf óunnið

Tveir prestar eru starfandi í málefnum innflytjenda og hefur töluvert starf verið unnið, að sögn Solveigar Láru. Enn sé þó mikið starf óunnið.

Alþjóðlegur söfnuður er í Breiðholtskirkju þar sem messað er á tveimur tungumálum.

Solveig Lára segir stefnt að því að sem flestir söfnuðir verði líka móttökusöfnuðir þar sem boðið yrði upp á starf með Íslendingum eða önnur þjónusta veitt.

„Við höfum verið með fræðslu í kristinni trú og sumir láta skírast. En það er ekki megintilgangurinn með þessari tillögu heldur fyrst og fremst að hlúa að fólki í neyð.“

Snýst um viðhorf frekar en peninga

Spurð um kostnað segir Solveig Lára að tillagan snúist fremur um viðhorf en peninga. Starfið verði fyrst og fremst unnið á safnaðargrunni.

„En það er samþykki fyrir þessum stöðuhlutföllum þessara tveggja presta og vonandi næst samþykki um að halda þeirri vinnu áfram.“

Í tillögunni er bent á að málefni innflytjenda og flóttafólks skarist að nokkru leyti, því í báðum hópum séu útlendingar sem flust hafa til Íslands. Innflytjendur hafi frelsi og tækifæri til að byggja líf sitt upp og skapa sér framtíð hér á landi og kvótaflóttafólk, sem boðið hefur verið til landsins, njóti stuðnings ríkis og sveitarfélaga í eitt ár.

Munur á stöðu innflytjenda og flóttafólks

„Annað flóttafólk, eins og um­sækjendur um alþjóðlega vernd eða hælisleitendur, eru aftur á móti í mjög erfiðum aðstæðum því að fótunum hefur verið kippt undan lífsafkomu þeirra og öryggi og eru þeir hér í óvissu um hvort þeir fái dvalarleyfi eða verði vísað úr landi.“

„Það er því grundvallarmunur á stöðu innflytjenda og flóttafólks, sérstaklega hælisleitenda, og því er mikilvægt að þjóðkirkjan taki sérstakt tillit til umsækjenda um alþjóðlega vernd,“ segir í tillögunni.

Einnig er í tillögunni tilvitnun í Dietrich Bonhoeffer: „Kirkja sem leggur aðeins áherslu á það sem fer fram innan veggja hennar verður fljótt ljót; kirkjan er aðeins kirkja þegar hún er til fyrir aðra.“

Kirkjan verði því ekki kirkja Krists nema hún þjóni sínum minnstu bræðrum og systrum óháð trú og kirkjuaðild.