Um tvö hundruð mismunandi hópar vinna nú að sögn BBC hörðum höndum að því að þróa bóluefni gegn Covid-19. Fyrstu gögnin úr prófunum á mönnum gefa jákvæða niðurstöðu með því að fyrstu átta sjúklingarnir framleiddu mótefni gegn veirunni.

Í Kína sýndu niðurstöður að bóluefnið sé öruggt og og að það hafi leitt til myndunar mótefnis í fólki. Hefur kínverski herinn fengið aðgang að þessu bóluefni.

Þá segir á vef BBC að í Oxford í Englandi séu hafnar fyrstu tilraunir í Evrópu með bóluefni á fólki með yfir átta hundruð sjálfboðaliðum. Gerður hefur verið samningur við AstraZeneca um að leggja til eitt hundrað milljónir skammta, þar af 30 milljónir fyrir Bretland, ef efnið virkar.

Einnig eru í gangi algjörlega nýjar nálganir við gerð bóluefnis þar sem hafnar eru tilraunir á fólki.

BBC varar við því að enginn viti í raun hversu árangursrík þessi bóluefni séu. Venjulega taki fleiri ár, jafnvel áratugi, að þróa slík lyf en að vísindamenn vonist nú til að ná árangri á aðeins nokkrum mánuðum.

Flestir sérfræðingar eru sagðir telja að bóluefni verði almennt orðið aðgengilegt um mitt næsta ár. Það segir BBC að yrði vísindalegt afrek.