Líkt og hérlendis hefur norsku Lyfjastofnuninni borist tilkynningar þar sem grunur leikur á um aukaverkanir í kjölfar bólusetninga við Covid-19.

Norska lyfjastofnunin sendi frá sér skýrslu í síðustu viku þar sem 23 dauðsföll sem tilkynnt voru til stofnunarinnar hjá einstaklingu sem höfðu nýlega fengið bóluefni Pfizer gegn Covid-19 voru rannsökuð. Dauðsföllin eru líkt og hér á landi allt hjá öldruðum einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma á hjúkrunar-eða dvalarheimilum.

Samkvæmt skýrslunni er möguleiki á að algengar aukaverkanir, svo sem hiti og ógleði geti átt þátt í dauðsföllum hjá hrumustu einstaklingunum. Þetta hefur þó ekki verið staðfest en verður rannsakað nánar.

Í rússneskum og kínverskum fjölmiðlum eru dauðsföllin í Noregi nú notuð sem sönnun þess að vestrænu mRNA bóluefnin sem lyfjafyrirtækin Pfizer- BioNtech og Moderna þróuðu séu ekki örugg í notkun.

Grein kímverska miðilsins Global Times á ekki við rök að styðjast og er hreinn áróður að mati Lyfjastofnunar Noregs.
Fréttablaði/skjáskot

„Heimurinn ætti að hætta að nota mRNA bóluefnin sem framleidd eru af Pfizer þar sem virkni þess hefur ekki verið könnuð á nógu mörgum einstaklingum og efnið ekki rannsakað til hlítar," segir ónæmissérfræðingur í Peking sem hefur beðið um að vera nafnlaus, í viðtali við kínverska blaðið Global Times. Dagblaðið vitnar einnig í veirufræðinginn Yang Zhanqiu sem starfar við Wuhan háskóla sem segir að ef það sé hægt að tengja dauðsföllin í Noregi við bólusetninguna sýni það að áhrif Pfizer bóluefnisins og annarra mRNA bóluefna séu ekki eins góð og búist var við.

Hreinn áróður

Steinar Madsen, yfirmaður Lyfjastofnunar Noregs, segir í samtali við NRK að um hreinan áróður sé að ræða og hefur áhyggjur af slíkri umfjöllun.

„Rússar nýta öll tækifæri til að koma sínu eigin bóluefni, SputnikV, á framfæri. Kínverjar eru sömuleiðis að þróa sitt eigið bóluefni og hafa því einnig hagsmuna að gæta." Hann segir sorglegast að rangt sé farið með upplýsingar í umfjöllun fjölmiðla.

„Við lögðum áherslu á það í skýrslunni að norsk yfirvöld hafa ekki áhyggjur af aukaverkunum bóluefnanna og bólusetningin heldur áfram hér samkvæmt áætlun. Það sem kom hins vegar fram, er að aukaverkanir sem eru skaðlausar fyrir flesta gætu hugsanlega leitt til dauðsfalla hjá elstu og hrumustu einstaklingunum sem fengu bóluefnið," segir Madsen.

Þetta eru álíka niðurstöður og fengust úr rannsókn embætti landlæknis hér á landi, en í fjórum af fimm tilvikum hérlendis er ekki talið, eða mjög ólíklegt, að um orsakatengsl milli bóluefnisins og alvarlegra aukaverkana sé að ræða.

Madsen segir jafnframt að lögð sé áhersla á í Noregi að fjallað verði um bóluefnin blátt áfram og engu leynt varðandi aukaverkanir eða annað slíkt sem gæti komið upp.

Hann segist hafa búist við því að skýrslan myndi vekja athygli en að áhuginn hafi verið mun meiri en hann gerði ráð fyrir. Fjölmiðlar víðs vegar um heiminn hafa sett sig í samband við Madsen og fjallað um skýrsluna, m.a. frá Rússlandi, Bandaríkjunum, Indlandi, Lettlandi, Hollandi og fl.