Tveir hópar kín­verskra ferða­manna mættu í gær í verslun Byko á Breiddinni í Kópa­vogi og keyptu allar öndunar­grímur verslunarinnar af á­kveðinni tegund. Um var að ræða yfir níu­tíu grímur. Þetta stað­festir Kristinn Jóns­son, deildar­stjóri Byko, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það var gert á­hlaup hérna í gær,“ segir Kristinn léttur í bragði. „Það komu tveir hópar sem voru að leita sér að öndunar­grímum og þeir bara keyptu hér allt sem við áttum til af þessu.“

Hann segir að fjórir til fimm ein­staklingar hafi verið í hvorum hóp. „Ég veit ekki alveg hvað fyrri hópurinn tók mikið en seinni hópurinn tók níu­tíu stykki. Þeir keyptu öndunar­grímur fyrir ein­hvern þrjá­tíu þúsund kall eitt­hvað svo­leiðis.“

Slíkar öndunargrímur eru algeng sjón í Kína þessa dagana.
Fréttablaðið/Getty

Hann segir að hóparnir hafi tekið allt sem var í boði. „Við þurftum bara að fara á lagerinn og þeir tóku allt. Við eigum ein­hverjar þrjár týpur og þeir voru að taka mestu verndina, sem er númer þrjú. Þeir keyptu allt sem við áttum af því. Svo eigum við ein­hverjar aðrar týpur.“

Kristinn segir að sér hafi skilst sem svo að annar hópurinn hafi verið frá Wu­han héraðinu, þar sem kóróna­veiran svo­kallaða á upp­tök sín. „Þau voru víst á leiðinni heim aftur. Þetta voru ekki nema fjórir fimm aðilar í hvorum hóp, þannig þau voru bara að hamstra.“

„Þegar annar hópurinn kom þá hugsuðum við bara hvort eitt­hvað væri í gangi, hvort við ættum sjálf að fara að pæla í þessu eða hvað.“