Tveir hópar kínverskra ferðamanna mættu í gær í verslun Byko á Breiddinni í Kópavogi og keyptu allar öndunargrímur verslunarinnar af ákveðinni tegund. Um var að ræða yfir níutíu grímur. Þetta staðfestir Kristinn Jónsson, deildarstjóri Byko, í samtali við Fréttablaðið.
„Það var gert áhlaup hérna í gær,“ segir Kristinn léttur í bragði. „Það komu tveir hópar sem voru að leita sér að öndunargrímum og þeir bara keyptu hér allt sem við áttum til af þessu.“
Hann segir að fjórir til fimm einstaklingar hafi verið í hvorum hóp. „Ég veit ekki alveg hvað fyrri hópurinn tók mikið en seinni hópurinn tók níutíu stykki. Þeir keyptu öndunargrímur fyrir einhvern þrjátíu þúsund kall eitthvað svoleiðis.“

Hann segir að hóparnir hafi tekið allt sem var í boði. „Við þurftum bara að fara á lagerinn og þeir tóku allt. Við eigum einhverjar þrjár týpur og þeir voru að taka mestu verndina, sem er númer þrjú. Þeir keyptu allt sem við áttum af því. Svo eigum við einhverjar aðrar týpur.“
Kristinn segir að sér hafi skilst sem svo að annar hópurinn hafi verið frá Wuhan héraðinu, þar sem kórónaveiran svokallaða á upptök sín. „Þau voru víst á leiðinni heim aftur. Þetta voru ekki nema fjórir fimm aðilar í hvorum hóp, þannig þau voru bara að hamstra.“
„Þegar annar hópurinn kom þá hugsuðum við bara hvort eitthvað væri í gangi, hvort við ættum sjálf að fara að pæla í þessu eða hvað.“