Þar sem efnahagur Kína er sífellt að vænkast, er íbúafjöldi í borgum sífellt að aukast, og fólk er í sífellt meiri mæli farið að yfirgefa heimabæi sína og setjast að á nýjum stöðum í leit að betri atvinnutækifærum. Þar sem það er mjög ríkt í þjóðarsál Kínverja að eyða vorhátíðinni í faðmi fjölskyldunnar í fæðingarbæ sínum, leggur gríðarlegur fjöldi manns land undir fót til að ferðast heim með öllum tiltækum ráðum og er áætlað að um einn milljarður manna sé á faraldsfæti á þessum tímamótum. Árið 2019 voru á 40 daga tímabili í kringum vorhátíðina skráðar 2,98 milljarðar ferða á þjóðvegum, með lestum og með flugi.

Fjölskyldukvöldverður á gamlárskvöld – út að borða og einfaldari máltíðir

Fjölskyldumáltíðin að kvöldi síðasta dags ársins er mjög mikilvæg. Til forna samanstóð hátíðakvöldverðurinn af 8-10 réttum sem fjölskyldan hafði undirbúið dögum saman. Í nútímanum er fólk betur statt fjárhagslega og er farið að leita eftir þægilegri lausnum.

Það er því orðið mjög vinsælt að stórfjölskyldan fari út að borða saman á þessu kvöldi og er stærstur hluti veitingastaða uppbókaður þetta kvöld. Einnig er það orðið mjög vinsælt að panta sér heimsendan mat eða matarpakka af netverslunum sem þarf þá bara að elda eða hita upp. Sala á þessum matarpökkum jókst gríðarlega milli áranna 2018 og 2019.

Nýársverslun með nýju sniði

Verslun í kringum vorhátíðina hefur einnig aukist gríðarlega, sem endurspeglar meiri kaupgetu almennings, en það þykir við hæfi að færa ættingjum og vinum gjafir á þessum tímamótum. Samkvæmt gögnum frá netverslunum er matur og drykkur það algengasta sem fólk kaupir á þessum tíma. Heilsuvörur eru einnig mjög eftirsóttar, og vörur með lágu fitu- og sykurinnihaldi verða sífellt vinsælli.

Aukning hefur einnig orðið í verslun með leiki og ferða- og útivistarvörur. Aukningin er ekki bara á innanlandsmarkaði, heldur hefur innflutningur varnings aukist um 65% milli áranna 2018 og 2019. Fólk er ekki einungis að versla fyrir sig og ættingja og vini heldur hefur mikil aukning orðið í sölu varnings fyrir gæludýr, og þá aðallega fyrir hunda og ketti. Það hefur lengi verið hefð að þeir sem ferðast heim fyrir vorhátíðina komi með alls kyns varning og matvæli heim með sér, og leggi með sér á hátíðarborðið og eru til margar sögur af yfirhlöðnum ferðalöngum á leið heim.

Með aukningu netverslana er fólk farið í síauknum mæli að auðvelda sér lífið og senda þetta á undan sér í póstbox sem eru á hverju götuhorni í Kína, og sækir síðan pöntunina bara þegar það kemur heim og ferðast létt.

Heillaóskir með snjallsímum

Þar sem snjallsímanotkun Kínverja er með því mesta sem gerist er orðið sífellt algengara að fólk skiptist á nýárskveðjum og hamingjuóskum á hinum ýmsu samfélagsmiðlum sem í gangi eru, svo sem WeChat og QQ og er úr gríðarlegu úrvali af vel upp settum kveðjum með hreyfimyndum að velja. Það er einnig að verða vinsælt að senda nokkurs konar rafræn „hong bao“ eða rauð umslög með smá lukkupeningum og spennan felst þá í því hvort nokkur aur sé í umslaginu eða ekki.

Ferðalög erlendis

Með aukinni velsæld Kínverja hefur það einnig færst í vöxt að ferðast til útlanda yfir kínversku áramótin, enda er þetta lengsta fríið þeirra. Árið 2019 voru skráðar um sjö milljónir ferða til 97 landa meðal Kínverja, og sáu menn mesta aukningu í ferðum til Norður-Evrópu.

Nýjar fjölskylduhefðir

Nýjar hefðir eru að skapast meðal fjölskyldna, með því að gera eitthvað saman sem fjölskylda og má þar nefna bíóferðir og ferðir á alls kyns söfn, og jókst miðasala í kvikmyndahús um 900 milljón dollara milli ára. Það er einnig orðið vinsælt að fjölskyldan fari í heimsókn á bóndabæi eða til lítilla þorpa á landsbyggðinni til að kenna yngri meðlimum fjölskyldunnar að meta framlag bænda til samfélagsins og auka umhverfisvitund þeirra.

Umhverfisvernd

Þó að hvellhettur og flugeldar hafi verið órjúfanlegur hluti af kínversku áramótunum í þúsundir ára, þá hafa sífellt fleiri áhyggjur af loftmengun vegna þeirra. Til að hvetja til umhverfisvænni hátíðarhalda hafa fjölmargar borgir og bæjarfélög bannað notkun þeirra, sérstaklega í stærri borgum.

Allir flugeldar og hvellhettur eru bannaðar í miðborg Peking vegna loftmengunar og slysahættu og sambærilegar reglur eru í gangi í fleiri borgum og bæjum. Sífellt fleiri borgir og bæjarfélög eru farin að banna alfarið notkun flugelda og hvellhetta, en annars staðar eru útbúin sérstök svæði þar sem fólk getur sprengt á ákveðnum dögum.

Vorhátíðin víða um heim

Með auknum áhuga alþjóðasamfélagsins hefur það færst í vöxt að kínversku áramótunum sé einnig fagnað um víða veröld. Árið 2019 var í fyrsta skipti boðið upp á nýársfögnuð með hátíðarsýningu í Gamla bíói, auk þess sem að í Hörpu var boðið upp á almenna nýárshátíð. Þessir atburðir vöktu mikla athygli og stuðluðu að aukinni þekkingu Íslendinga á Kína.

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi

Í þjóðarsál Kínverja að eyða vorhátíðinni í faðmi fjölskyldunar í fæðingarbæ sínum, leggur gríðarlegur fjöldi manns land undir fót til að ferðast heim