Kín­versk yfir­völd hafa á­kveðið að grípa til að­gerða vegna út­breiðslu hins svo­kallaða kóróna­vírusar í Wu­han borg og loka öllum sam­göngu­kerfum út úr borginni, að því er fram kemur á vef Guar­dian.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í gær hefur hinn nýi lungna­sjúk­dómur nú breiðst út til Banda­ríkjanna. Bárust fréttir af því í gær að karl­maður frá Seatt­le, sem ferðast hafði til Wu­han, hefði greinst með veiruna. Hann er á spítala og ekki al­var­lega veikur.

Í frétt Guar­dian er tekið fram að fyrir­skipanir stjórn­valda þýði að strætis­vagnar, neðan­jarðar­lest, ferjur auk annarra far­angurs­kosta frá borginni verði lokað frá klukkan 10:00 í fyrra­málið. Þá verður far­þegum einnig meinað að yfir­gefa borgina á flug­velli og lestar­stöðum borgarinnar.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá kín­verskum fjöl­miðlum eru í­búar borgarinnar beðnir um að halda kyrru fyrir í borginni. Vírusinn hefur dregið sau­tján manns til dauða og er talið að rúm­lega 4000 manns séu sýktir. Ellefu milljón manns búa í borginni.

Kemur fram í um­fjöllun Guar­dian að tala látinna hafi því rúm­lega tvö­faldast í einum vett­vangi en fram að þessu höfðu einungis níu manns látist vegna vírussins, að því er upp­lýsingar frá kín­verskum yfir­völdum herma.

Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin mun funda í annað skiptið vegna veirunnar á morgun, fimmtu­dag. Enn sem komið er hefur ekki verið lýst yfir neyðar­á­standi á al­þjóða­vísu vegna vírussins.

Land­læknir birti í upp­hafi janúar hér á landi upp­lýsingar vegna veirunnar. Þar var tekið fram að ekki væri til­efni til sér­tækra að­gerða hér landi vegna út­breiðslu hennar. Sjúk­lingar hér­lendis hafa þó verið beðnir um að upp­lýsa heil­brigðis­starfs­fólk ef það hefur ný­lega ferðast til suður­hluta Kína.