Kínversk far­þega­þota með um 123 farþegum og níu starfsmönnum um borð hrapaði í fjall­lendi í suður­hluta Kína snemma morguns á mánudag. Þotan var af gerðinni Boeing 737 og var rekin af China Ea­stern Air­lines.

Á vef New York Times segir að vélin hafi hrapað í Guangxi-héraði og að það megi sjá reyk og eld rísa frá fjöllunum.

„Björgunar­teymi hefur verið sett saman og er að nálgast,“ kom fram í yfir­lýsingu í kín­verskum fjöl­miðlum og að tala látinna sé enn ó­ljós.

Greint var frá því fyrst að vélin hefði hrapað í Teng-sýslu Guangxi og hafi verið að fljúga frá Kun­ming sem er borg í suð­vestur­hluta Kína, til Guangz­hou, sem er borg syðst í landinu. Í mynd­efni sem var deilt af kín­verskum al­menningi mátti sjá eld í þéttum skógi og sprengingar en stað­setningin var þá ó­ljós.

Þá kemur fram í frétt New York Times að hrapið gæti orðið það versta síðan á tíunda ára­tug síðustu aldar í Kína en flug­öryggi hefur verið aukið með nýjum og yngri flota síðustu tvo ára­tugina.