Nýjum kóróna­veiru­smitum fækkar dag frá degi og segja Kín­versk stjórn­völd það sýna að þau séu að ná stjórn á far­aldrinum. 2.009 ný til­vik voru stað­fest í morgun og létust 142 til við­bótar af völdum veirunnar.

Ný til­felli smita milli daga náðu há­marki sínu í vikunni en þeim hefur fækkað aftur síðustu þrjá daga. Í heildina hafa yfir 68 þúsund greinst með veiruna og er tala látinna komin upp í 1.665.

Nánast öll þessara tilvika hafa komið upp í Kína en utan landsins hafa einungis 500 verið greindir með veiruna í tæpum 30 löndum. Fjórir hafa látist utan megin­lands Kína; í Hong Kong, Filipps­eyjum, Japan og síðast lést átt­ræð kona í Frakk­landi í gær. Það var jafn­framt fyrsta dauðs­fall utan Asíu af völdum kóróna­veirunnar.

Mi Feng, tals­maður heil­brigðis­yfir­valda í Kína, segir þær ráð­stafanir sem kín­versk stjórn­völd hafa gripið til til að hindra frekari út­breiðslu veirunnar vera byrjuð að hafa á­hrif. Fram­kvæmda­stjóri Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar hefur hrósað kín­verskum stjórn­völdum fyrir við­brögð sín við far­aldrinum.


„Kína hefur unnið okkur inn meiri tíma til að takast á við vandann. Við vitum þó ekki hversu mikinn tíma,“ segir framkvæmdastjórinn Tedros Adhanom. „Það er mjög jákvætt að við höfum enn ekki séð ein­hver víð­tæk áhrif á heilu samfélögin vegna veirunnar utan Kína.“

Frétt BBC um málið.