Kín­versk-kanadíska popp­stjarnan Kris Wu hefur verið hand­tekinn vegna gruns um nauðgun. Lög­reglu­menn í Beijing segja að rann­sóknin snúist um á­sakanir sem hafa birst á netinu um að söngvarinn hafi tælt fjölda kvenna til að sofa hjá sér á fölskum for­sendum.

Wu, sem er 30 ára og einn frægasti tón­listar­maður Kína, hefur neitað öllum á­sökununum.

Fyrsta konan sem steig fram var hin 19 ára gamla Du Meizhu sem sagði frá því á sam­fé­lags­miðlum í byrjun júlí­mánaðar að Wu hafi beitt hana of­beldi þegar hún var 17 ára. Hún sagði Wu hafa boðið henni í partý heim til sín þar sem hann pressaði hana til að drekka á­fengi og hún hafi svo vaknað upp í rúmi hans daginn eftir.

Daginn eftir að Du steig fram riftu minnst tíu fyrir­tæki samningum sínum við Wu, þar á meðal Porche og Louis Vuitt­on.

Du segir að hún viti um sjö aðrar konur sem Wu hafi dregið á tálar með lof­orðum um störf og tæki­færi og að sumar þeirra hafi verið undir aldri. Að minnsta kosti 24 aðrar konur hafa stigið fram og sakað söng­varann um allt frá ó­við­eig­andi hegðun yfir í nauðgun.

Wu hefur neitað því að hafa gefið Du á­fengi og neitað öllum á­sökunum um að hafa lokkað konur til að sofa hjá sér með gylli­boðum, nauðgað konum meðan þær voru með­vitundar­lausar og sofið hjá stúlkum undir aldri. Sam­kvæmt kín­verskum lögum eru allir undir 18 ára skil­greindir sem börn en sam­ræðis­aldur er 14 ára.

„Það var ekkert „grúppíu“ kyn­líf! Það var ekkert „undir aldri“! Ef það væri eitt­hvað slíkt, vin­sam­legast róið ykkur, þá hefði ég sett sjálfan mig í fangelsi!“ skrifaði Wu á sam­fé­lagmiðlum eftir að á­sakanirnar komu upp á yfir­borðið.

Lög­menn Wu hafa stefnt Du fyrir meið­yrði.

Wu varð fyrst frægur sem með­limur K-Pop hljóm­sveitarinnar EXO en hann yfir­gaf sveitina árið 2014 til að ein­blína sér að sóló­ferli sínum sem söngvari, leikari og módel.