Innlent

Kín­verjar vilja ólmir þýða boð­skap Jóns Bald­vins

Jón Bald­vin Hannibals­son kynnti efni bókar sinnar Nor­ræna módelið gegn ögrun ný­frjáls­hyggjunnar fyrir Kín­verjum í sumar og þeir vilja ólmir þýða fagnaðar­erindi nor­ræna vel­ferðar­kerfisins á kín­versku.

„Ég veit það eitt að útgefandinn er í samningum við Kínverja um það mál,“ segir Jón Baldvin um bók sína Norræna módelið gegn ögrun nýfrjálshyggjunnar. Fréttablaðið/Vilhelm

Bókin Norræna módelið gegn ögrun nýfrjálshyggjunnar, eftir utanríkisráðherrann fyrrverandi Jón Baldvin Hannibalsson, kom nýlega út á ensku. Jón Baldvin hélt erindi upp úr bókinni hjá utanríkismálastofnun Kínverja í Bejing í sumar og vakti boðskapurinn slíka lukku að til stendur að þýða bókina á kínversku.

„Bókin er skrifuð á ensku og gefin út í Þýskalandi og mér skilst á útgefendum að hún seljist einkum í Austur-Evrópu,“ segir Jón Baldvin í samtali við Fréttablaðið.

„Í tilefni af útkomu þessarar bókar flutti ég erindi um þetta efni hjá utanríkismálastofnun Kínverja í Beijingí júlí. Niðurstaðan að loknum umræðum þar var að þeir virtust hafa nægan áhuga á efninu því að forstöðumaður stofnunarinnar lýsti því yfir að þeir ætluðu að þýða hana á kínversku. Það þóttu mér nú nokkrar fréttir,“ segir Jón Baldvin. „Ég veit það eitt að útgefandinn er í samningum við Kínverja um það mál.“

Frá Kína til Moskvu með Síberíulestinni

Jón Baldvin segir gamlan draum hafa orðið til þess að hann fór til Kína í sumar. „Ég lét gamlan draum rætast í júlí af því tilefni að Bryndís átti merkisafmæli. Að fara með Síberíulestinni þessi fimm tímabelti frá landamærum Kína til Moskvu.“ Jón Baldvin segir þau hjónin hafa haldið dagbók um ferðina, hún hafi verið prentuð og þau hafi sagt ferðasöguna við nokkur tækifæri og „þetta verður á dagskrá Ríkisútvarpsins einhvern tímann milli hátíðanna.“

Norræna módelið hefur löngum verið Jóni Baldvin hugleikið en bókin fjallar um fleira. „Þessi bók er ekki eingöngu um þetta. Hún er um reynslu Íslendinga af hruninu og samanburður á því hvernig Íslendingar komu út úr hruninu í til dæmis samanburði við þjóðir Evrópusambandsins og evrusvæðisins.

Það er eitt. Annað er almenn umræða um Ísland og Evrópu og þriðja um norræna módelið sem ég segi að er eina svarið við martröð nýfrjálshyggjunnar sem er að fara með allt til helvítis. Gríðarlega vaxandi ójöfnuði og  þar af aleiðandi aðför að raunverulegu lýðræði.“

Evrópukrísan

Jón Baldvin segist ekkert hafa upp úr útgáfu bókarinnar enda leikurinn ekki til þess gerður enda líti hann á það sem hugsjónastarf að vekja athygli á norræna módelinu.

„Það er ævilöng hugsjón en sér í lagi núna vegna þess að Evrópa er enn í dag í krísu. Hún hefur ekkert ráðið við fjármálakreppuna 2008 og sum lönd þar eru í tilverukreppu. Það er nú búið að eyðileggja Grikkland og svo framvegis,“ segir Jón Baldvin.

„Lykilástæðan er fyrst og fremst sú að rotið og spillt fjármagnskerfi hefur vaxið raunhagkerfin gjörsamlega yfir höfuð. Stærsta hagkerfi heimsins núna er ekki Bandaríkin heldur skattaskjólin í heiminum. Það hefur orðið svo mikil valdatilfærsla frá fulltrúum vinnuafls og launa yfir til fjármagnseigenda.

Þetta brast allt á sem sýnilegur veruleiki eftir fjármálakreppuna í Bandaríkjunum 2008 sem breiddist svo út. Evrópa hefur ekkert ráðið við þetta. Það eru náttúrlega hægri ríkisstjórnir nærri því í öllum ríkjum Evrópu og þær eru allar meira eða minna á valdi fjármagnseigenda.

Jón Baldvin og Bryndís létu gamlan draum rætast og fóru í sumar í gegnum fimm tímabelti með Síberíulestinni. Ferðasagan verður á dagskrá RÚV um jólin. Fréttablaðið/Anton Brink

Og það sem er að gerast er að þetta ójafnaðarhagkerfi er að festa sig í sessi. Evrusvæðið er tæknilega meingallað og Evrópa er bara í kreppu. Ástæðan er ofurvald fjármagnsins og veikt lýðræði og táknmyndin er sú að hafa aðal frömuð skattsvika í heiminum, þennan Juncker þarna frá Lúxembúrg, í forsæti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Það er svívirða.“

Norðurlöndin eru með eina svarið

„Eina svarið við þessu er norræna módelið,“ segir Jón Baldvin og bætir við að norrænu þjóðfélögin séu þau einu sem hafa staðið þetta af sér. „Það hefur verið hart að þeim sótt en þau hafa staðið þetta af sér. Þau eru náttúrlega eftirsóknarverðustu þjóðfélög í heimi. Já. En það er mjög hart sótt að þeim til þess að laska þau með einkavæðingarferli og svo framvegis. Það hefur tekist að skemma sumt en þau hafa staðið af sér í grundvallaratriðum og þau hafa náð gríðarlegum árangri.“

Jón Baldvin segir Íslendinga þó, illi heilli, vera að fjarlægjast þessa samfélagsgerð. „Ísland varð í raun og veru tilraunastofa fyrir nýfrjálshyggjuna í aðdraganda hrunsins. Með öðrum orðum við vorum ekki að gera mistök. Við þóttumst vera að framfylgja stefnu sem átti að skila árangri. Hún endaði í allsherjar hruni.“

Ísland á krossgötum

Hann segir hins vegar margt gott hafa verið gert eftir hrunið og nefnir sérstaklega Rannsóknarskýrslu Alþingis. „Hennar úttekt hefur staðist og hennar tillögur um breytingar voru vel grundaðar og þeim var vísað til Alþingis og Alþingi klúðraði því öllu saman.

Við höfum með öðrum orðum ekki brugðist við og erum að sumu leyti að endurreisa sama kerfið, en ég skal taka það fram að þrátt fyrir allt erum við ekki eins skuldug og við vorum þá. Það þýðir að við erum ekki í yfirvofandi hættu að þetta endurtaki sig en það er margt sem stefnir í þá átt,“ segir Jón Baldvin og nefnir bóluhagkerfi á húnsæðismarkaði sem dæmi.

„Við höfum verið að fjarlægjast norræna módelið. Velferðarkerfið okkar er skekkt á grunninum. Það er illilega laskað og við höfum ekki tekið á þeim málum og við stöndum núna frammi fyrir því hvort við ætlum að fara aftur sömu leið og verða svona eftiröpun á amerísku casino-hagkerfi eða ætlum við að stefna í framtíðinni að því verða eitt af velferðarríkjum Norðurlanda. Um það stendur valið en pólitíkin hér er öll í skötulíki. Menn eru bara að rífast um aukaatriði og það er enginn kúrs.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Evrópusambandið

Juncker vill að Bretar verði Belgar

Innlent

Skipu­legt nor­rænt sam­starf lykillinn að betra vel­ferðar­kerfi

Evrópusambandið

Of stutt til kosninga til að leyfa fjölþjóðlega lista

Auglýsing

Nýjast

Starfsfólk Porsche fékk 1,3 milljónir í bónus

​Lokanir á Lyng­dals­heiði, Hellis­heiði og Þrengslum

Leggja fram þriðja orku­pakkann „á ís­lenskum for­sendum“

„Óbilgirnin er svakaleg“

Élja­bakki og hvassvirði nálgast suð­vestur­hornið

Clio „Besti framleiðslubíllinn“ í Genf

Auglýsing