Kínversk stjórnvöld neita að taka þátt í næsta fasa rannsóknar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á uppruna Covid-19. Stofnunin vill að vísindafólk á sínum vegum fái aðgang að rannsóknarstofum þar sem veiran greindist fyrst.
Þessar hugmyndir leggjast illa í Zeng Yixin, aðstoðarheilbrigðisráðherra Kína. Hann segir þetta „sýna vanvirðingu í garð almennrar skynsemi og hroka í garð vísinda“ og komi sér mjög á óvart. „Ómögulegt“ væri fyrir Kínverja að sætta sig við skilyrði stofnunarinnar.
WHO telur afar ólíklegt, líkt og sumir hafa haldið fram, að vírusinn hafi sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan þar sem fyrsta tilfellið greindist í lok árs 2019. Sendinefnd á vegum stofnunarinnar sótti borgina heim í janúar en Kínverjar voru tregir til samstarfs og fékk nefndin ekki aðgang að öllum þeim stöðum sem hún óskaði eftir. Auk þess lögðu Kínverjar ekki fram öll þau gögn sem óskað var eftir.
Dr. Tedros Ghebreyesus, yfirmaður WHO, lýsti því á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum hver næstu skref yrðu í rannsókninni á uppruna Covid. Í því fælist meðal annars athugun á rannsóknarstofum í Wuhan. Hann hefur farið fram á það við kínversk stjórnvöld að þau sýni meiri samstarfsvilja og séu „gagnsæ, opin og samvinnufús“ í garð vísindafólks stofnunarinnar.