Það hefur lengi loðað við kínverska bílkaupendur að vilja helst lengdar gerðir bíla ef þær bjóðast. Er það ekki sökum þess hve hávaxnir kínverjar almennt eru. Kaupendur þeirra láta nefnilega oft bílstjóra aka þeim í bílunum og sitja þá í aftursætunum og þá er nú eins gott að þar sé gott rými. Audi A6 hefur ekki enn boðist Evrópubúum í lengdri gerð, en bíllinn sá mun brátt bjóðast kínverskum kaupendum. 

Audi er nefnilega að kynna A6L á bílasýningunni Guangzhou Auto Show sem nú stendur yfir og það sem meira er, Audi A6 verður einungis í boði í lengdri útgáfu í Kína. Bíllinn er framleiddur í Kína og í fyrstu verður hann aðeins í boði með 2,0 lítra vél sem annaðhvort er 190 eða 224 hestafla, en á næstunni stendur til að bjóða hann einnig sem tengiltvinnbíl. 

Audi A6L verður sko alls ekki fyrsti lengdi lúxusbíllinn sem boðinn er í þessum stærðarflokki í Kína því BMW 5-línan, Mercedes Benz E-Class og Jaguar XKL eru þar einnig í boði í lengdri gerð. Það eru reyndar ekki bara fólksbílar sem bjóðast þar í lengdri gerð heldur líka jepplingar og dæmi um það er Audi Q5 L og Mercedes Benz GLC L. Því er allt sem langt getur talist góð söluvara í Kína. Þessum bílum er bara að fjölga og auk Audi A6L á bílasýningunni í Guangzhou er Peugeot 508L þar til sýnis núna, en hann er lengri gerð 508 bílsins.