Stjórnvöld í Kína og Rússlandi gáfu út sameiginlega yfirlýsingu í gær um að þjóðirnar myndu styðja hvor aðra og að Atlantshafsbandalagið, NATO, væri að kynda undir nýju köldu stríði. Legðust báðar þjóðir gegn því að fleiri þjóðir myndu ganga inn í NATO.

Ekki var minnst á Úkraínu með beinum orðum en fáum dylst að það er raunveruleg meining yfirlýsingarinnar. Meira en 100 þúsund rússneskir hermenn eru við landamæri Úkraínu og spennan milli Rússlands og vesturveldanna hefur ekki verið meiri í langan tíma.

Yfirlýsingin var gerð þegar Vladímír Pútín Rússlandsforseti heimsótti Kína í tilefni af setningarhátíð Vetrarólympíuleikanna, sem fram fara í Peking. Pútín og Xi Jinping, aðalræðismaður kínverska kommúnistaflokksins, hafa ekki hist síðan faraldurinn byrjaði.

Hún gengur ekki aðeins í eina átt, því að Rússar sögðust einnig lýsa yfir fullum stuðningi við stefnu Kínverja gagnvart Tævan. Kínverjar viðurkenna ekki tilvist sjálfstæðs Taívan og hyggjast ná eyjunni á sitt vald í framtíðinni.