Rúmu ári eftir að læknar greindu fyrstu til­felli dular­fulla nýja sjúk­dómsins CO­VID-19 í Wu­han héraði í Kína virðast yfir­völd þar í landi nú gera til­raunir til þess að endur­skrifa söguna um upp­runa veiru­sýkingarinnar, að því er fram kemur í um­fjöllun Guar­dian um málið.

Þar segir frá því að kín­verskir ríkismiðlar keppist nú við að greina frá því að örður af veirunni hafi meðal annars fundist á um­búðum frosins mat­vælis sem flutt var inn til Kína, auk þess sem þeir hafa flutt fréttir af rann­sóknum á öðrum til­vikum þar sem sjúk­dómurinn er sagður hafa greinst utan Kína fyrir desember 2019.

Þá kemur fram í um­fjöllun Guar­dian að opin­bera dag­blaðið Peop­le's Daily hafi full­yrt í Face­book færslu í síðustu viku að „öll sönnunar­gögn bendi til þess að kórónu­vírusinn hafi ekki átt upp­haf sitt í Wu­han héraði í Kína.“

„Wu­han er þar sem kórónu­vírusinn var fyrst greindur en ekki upp­runa­staður hans,“ hefur blaðið eftir Zeng Guang, fyrr­verandi sótt­varna­lækni Sótt­varnar­stofnunar Kína.

Þá hafa kín­verskir vísinda­menn meðal annars lagt fram rann­sóknar­grein í vísinda­tíma­ritinu Lancet, sem ekki hefur verið sam­þykkt, þar sem full­yrt er að Wu­han hafi ekki verið upp­runa­staður veirunnar. Þess í stað hafi fyrstu til­felli mögu­lega greinst í „ind­verskri undi­r­álfu,“ (e. indian subcontinent) líkt og segir í um­fjöllun Guar­dian.

Gefa lítið fyrir full­yrðingar Kín­verja

Vest­rænir vísinda­menn gefa lítið fyrir full­yrðingarnar. Guar­dian hefur eftir Michael Ryan, yfir­manni á neyðar­sviði Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar, að slíkar rök­semda­færslur gætu einungis byggt á get­gátum.

„Það er alveg ljóst frá al­mennum heil­brigðis­sjónar­miðum að þú hefur rann­sóknina þína þar sem fyrstu til­felli mann­legra smita komu upp,“ segir hann.

Þá hefur breska blaðið eftir Jon­a­t­han Stoye, ó­næmis­fræðingi við Francis Crick stofnunina í London, að full­yrðingar um að CO­VID-19 hafi verið komið til Ítalíu haustið 2019 standist ekki skoðun. Hann segir niður­stöður rað­greininga þaðan sýna að þar hafi verið aðrir stofnar kórónu­veira, en ekki Sars-COV-2 vírusinn.

Hefur Guar­dian eftir Andrew Small, banda­rískum fræði­manni sem starfar hjá hug­veitunni German Mars­hall Fund, að Kín­verjar reyni nú að bæta í­mynd landsins vegna heims­far­aldurinn. Hann segist ekki efast um það að kín­versk stjórn­völd viti vel að veiran hafi upp­runa­lega greinst þar.